Lífið

Ég er ekki orðinn skíthæll

Atli Fannar Bjarkason skrifar
„Málið er að ég er mjög stressaður gaur. Eins núna þá er ég á nálum. Ég er á nálum yfir því að það er ný þáttaröð að byrja. Það er heilmikið stress í gangi. Það verður lítið sofið í vikunni. Ég er í rauninni að fara á taugum. Ég reyki rosalega mikið af rettum og drekk mikið kaffi," segir grínistinn Steinþór Hróar Steinþórsson, Steindi Jr.

Steindi hefur ríka ástæðu til að vera stressaður. 7. apríl verður önnur þáttaröð Steindans okkar frumsýnd á Stöð 2. Hann byrjaði að skrifa þáttaröðina fyrir átta mánuðum ásamt samstarfsmönnum sínum Ágústi Bent og Magnúsi Leifssyni, en sá síðarnefndi slóst í hópinn fyrir nýju þáttaröðina eftir að hafa komið með góðar hugmyndir í fyrstu þáttaröðina.

Steindi er gríðarlega upptekinn þessa dagana og mætti allt of seint í viðtalið vegna þess að hann var á fundi úti í bæ. Fundinum hafði reyndar seinkað vegna þess að Steindi svaf yfir sig, en það var bara vegna þess að upptökur á Steindanum okkar stóðu til þrjú nóttina áður. Óstundvísi Steinda fór illa í Valla ljósmyndara, sem ætlaði að berja hann með lóðunum sem notuð voru í myndatökunni, en reiðin var fljót að renna af honum þegar Steindi gekk inn, gaf honum fimmu og spurði: „Hvað er að frétta?"

Bjór og karfa upp í bústað
Það sem er að frétta er að sjálfsögðu endurkoma Steinda. Önnur þáttaröðin verður að hans sögn ógeðslega fyndin.

„Ég lofa góðri skemmtun. Ég held að fólk geti átt von á mjög fyndnum þáttum," segir hann kokhraustur og þaggar niður í símanum sem átti eftir að hringja um tuttugu sinnum á meðan viðtalið stóð yfir.

Lentuð þið ekki í erfiðleikum með að halda áfram að vera fyndnir eftir fyrstu þáttaröðina?

„Nei. Við tókum okkur ekkert hlé eftir fyrstu þáttaröðina. Við byrjuðum strax að skrifa niður hugmyndir og tókum svo þrjá mánuði í að skrifa nýju þáttaröðina. Við fórum til dæmis í sumarbústað og skrifuðum."

Voruð þið sem sagt blindfullir í bústað að skrifa?

„Við fengum nokkra. Við grilluðum kótelettur, spiluðum körfubolta og höfðum það kósí."

Steindi og félagar klára ekki þáttaröðina áður en hún verður frumsýnd. Þeir skilja viljandi eftir pláss fyrir tvö atriði í hverjum þætti þannig að þeir geti tekið upp ný, hvort sem þau tengjast atburðum líðandi stundar eða ekki. „Við viljum hafa möguleika á því að grípa eitthvað sem er að gerast," útskýrir Steindi.

„En ef við gerum það ekki gerum við hlutlaust atriði. Íslendingar hafa alltaf fylgst mest með áramótaskaupinu og Spaugstofunni. Þannig að fólk heldur alltaf að það sé verið að gera grín að einhverju. Fólk veltir alltaf fyrir sér hverjum það er verið að gera grín að og af hverju það sé verið að skjóta á hann. Það er alltaf verið að gera þetta, en við erum ekki þannig. Við erum til dæmis ekki pólitískir. Grínið okkar er hlutlaust. Tímalaust."

Slúður um dóp
Steindi var á forsíðu Popps fyrir ári síðan. Þá var fyrsta þáttaröðin ekki farin í loftið og enginn vissi hvernig honum myndi vegna. Þáttaröðin setti engin áhorfsmet og var til að mynda ekki á lista yfir vinsælustu þætti Stöðvar 2. Hann var hins vegar á allra vörum, lögin úr þáttunum nutu mikilla vinsælda og íslensk ungmenni fengu ekki nóg af honum. Velgengnin varð til þess að hann og Ágúst Bent voru allt í einu byrjaðir að framleiða auglýsingar, en tekjurnar af þeim notuðu þeir til að kaupa græjur sem voru síðar notaðar til að taka upp nýja þáttaröð. Grínið var orðið sjálfbært, en breytti þetta Steinda? Eiginlega ekki, en hann segist reyndar vera orðinn duglegri.

„Það er eiginlega eina og ég er ekki orðinn skíthæll. Áður fyrr var ég að vinna í íþróttahúsi í Mosfellsbæ og hafði auðvitað engan áhuga á því – vildi helst ekkert vinna. Það var í rauninni spurning hvar ég myndi enda. Án þess að ég væri á leiðinni í ræsið. Ég hafði engan áhuga á öðru en að skrifa grín. Þegar ég byrjaði á því vorum við farnir að vinna kannski 14 til 16 tíma á dag og það var allt í lagi. Það var gaman."

En þú ert orðinn frægur og byrjaður að hanga með frægu fólki. Ég frétti til dæmis af þér í fríi með Audda Blö og Agli Gillzenegger í lok síðasta árs. Ertu búinn að losa þig við gömlu vinina og farinn að hanga einungis með frægu fólki?

Steindi hlær við. „Nei. Alls ekki. Auðvitað ekki. Ég er í góðu sambandi við æskuvini mína. Hef alltaf verið. En auðvitað eignast ég nýja vini því ég er alltaf að vinna með nýju fólki. Í þessum bransa eignast maður mikið af félögum, en ég fer enn þá á Áslák [bar í Mosfellsbæ] með æskufélögunum."

En nú er talsvert slúðrað um fræga fólkið. Hefurðu heyrt eitthvað um þig sem er ekki satt?

„Ég hef heyrt slúður um að ég sé í rugli. Ég veit ekki einu sinni hvað það þýðir – kannski er ég í rugli. Ég heyrði að ég væri að nota eiturlyf. Ég held ég gæti ekki gert það sem ég er að gera í dag ef ég væri að nota mikið af eiturlyfjum."

Hafa slíkar sögur sært þig?

„Það var særandi að heyra að einhver héldi að ég væri í eiturlyfjum. En það er vegna þess að ég nota ekki eiturlyf og myndi aldrei gera það. Sagan fór af stað þegar við vorum að taka upp atriði í nýju þáttaröðinni þar sem ég átti að vera mjög djammaður gaur og við þurftum að fara á djammið að taka upp. Svo förum við að fá okkur að borða og þaðan kom slúðrið. Það voru víst háskólanemar sem sáu mig í tómu rugli inni á Subway, ég var málaður hvítur og með blóðnasir. Þeir tóku greinilega ekki eftir myndavélinni. Það sem særir mig líka eru Youtube-ummæli. Ég fylgist með þeim. Þannig að ef einhver hefur talað illa um mig á Youtube þá hef ég séð það og verð mjög sár. Ég tek það nærri mér. Mig grunar ég sé ekki með hjarta í þetta (hlær)."

Hvort græturðu á öxl kærustunnar eða ferð á barinn?

„Bæði. Svo getur huggunin líka verið Waterworld og snakkpoki. Ég horfi bara á vondar myndir, Outbreak er í tækinu núna. En það er önnur saga. Mér finnst að öllum þurfi að líka vel við mig. Það er helsti gallinn minn."

Óli Geir reddaði berbrjósta stelpu
Nú voru Auddi og Sveppi, félagar þínir, gagnrýndir fyrir framkomu sína í gagnvart Einar Bárðarsyni í þætti sínum. Óttast þú slík viðbrögð í þinn garð?

„Nei. Ég held ekki. Auddi og Sveppi eru með þannig þátt að þeir eru mjög auðveld skotmörk. Fólk elskar að bögga þá. Við komumst upp með meira en þeir, enda eru þættirnir okkar leiknir. Í bíó kemst maður svo upp með enn þá meira og í leikhúsi kemst maður upp með allt. Það geta verið nauðganir og barnaníðingar – mesti viðbjóður í heimi í leikhúsinu í nafni listarinnar. Grín er list. Ekkert annað. Við erum að gera leikið efni og komumst upp með ýmislegt. Það má til dæmis vera nekt í leiknu sjónvarpsefni."

Er nekt í nýju þáttaröðinni?

„Það er atriði þar sem Pappírs-Pési er heitum ástarleik með píu og hún er nakin. Það verður tryllt kynlífsatriði með Pappírs-Pésa."

Hvar fannstu stelpu til að leika í atriðinu?

„Ég sá myndband á netinu frá Dirty Night-kvöldi Óla Geirs [partíhaldari og fyrrverandi herra Ísland] og hringdi því í hann og spurði hvaða stelpur væru að dansa í myndbandinu. Hann gaf mér númerið hjá stelpu sem gaf mér númerið hjá annarri stelpu sem var til í þetta. Mig vantaði sem sagt berbrjósta stelpu þannig að ég hringdi í Óla Geir!"

En finnurðu fyrir þrýstingi á vera fyrirmynd fyrir ungt fólk?

„Ég hef aldrei litið á mig sem fyrirmynd. En ég er góð fyrirmynd! Ég drekk í hófi – eða nei, ég er mjög drykkfelldur. En samt vil ég meina að ég sé góð fyrirmynd. Við erum að láta drauma okkar rætast með því að búa til grín. Ég nota engin fíkn… ég reyki reyndar, en nota engin fíkniefni. Ég er farinn að passa hvar ég kveiki mér í – farinn að hugsa mig tvisvar um. Ég veit ekki hvort það er rétt eða rangt. En ég tefli á netinu á hverjum einasta degi. Ég er ógeðslega góður í skák. Þannig að ég myndi segja að ég væri góð fyrirmynd. Mér finnst það vera hið besta mál ef krakkar líta upp til mín. Ég er enginn vitleysingur – bara góður í að leika vitleysing."

Þegar annarri þáttaröð er lokið hyggst Steindi taka sér gott sumarfrí, en svo verður haldið áfram að skrifa. Stöð 2 hefur ekki samið við strákana um gerð þriðju þáttaraðarinnar, en Steindi er viss um að hún verði gerð.

„Við gerum pottþétt eitthvað. Við viljum gera allavega eina þáttaröð í viðbót áður en við gerum eitthvað nýtt. Í sumar ætla ég svo að taka kúrsa í leiklist. Grín er yfirleitt þannig að það mega ekki vera tvö fífl – það verður að vera eitt fífl og einn venjulegur. Ég leik yfirleitt fíflið og við fáum gesti og flotta leikara til að leika á móti. Ég hef komist upp með að vera alltaf fíflið, en það væri gaman að læra leiklist til að geta leikið alvarlegri hlutverk. Mig langar að eiga möguleika á að leika grafalvarlegt hlutverk. Svo ætla ég að læra smá söng og byrja í jóga svo ég verði liðugri. Ég er svo stirður og það háir mér í gríninu. Fólk heldur að þetta sé engin hreyfing, en þetta er heljarinnar átak fyrir líkamann."

Hvað með framtíðina? Þú ert búinn að vera lengi með kærustunni, orðinn 26 ára gamall og nokkuð ráðsettur. Ertu byrjaður að huga að barneignum?

„Að dúndra einu í ofninn? Málið er að Dóri [DNA] félagi minn var að eignast barn um daginn. Hann hringir daglega í mig og spyr hvort ég ætli ekki að gera það líka. Ég hef sagt áður að ég sé hræddur um að mínir menn séu ekki syndir. Þetta er tilfinning. Annars er ég ekki á neinni hraðferð. Ég og kærastan mín búum saman í Mosfellsbæ. Hún er nýbúin að klára nám. Ætli við séum ekki að safna. Ég veit það ekki. Þetta mun sennilega vera slysabarn, þegar það kemur. Ég er slysabarn. En mig langar að eignast barn, bara ekki núna."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.