Lífið

Tískuhjartað slær í takt

Ása Ninna Pétursdóttir og Guðmundur Hallgrímsson. Mynd/GVA
Ása Ninna Pétursdóttir og Guðmundur Hallgrímsson. Mynd/GVA
Innan tískuheimsins má finna fjölda fjölskyldufyrirtækja. Sum eru rótgróin og önnur ný af nálinni en þau eiga það öll sameiginlegt að þar koma fjölskyldur saman í nafni tískunnar. Hér má einnig finna slík fjölskyldufyrirtæki og fékk Föstudagur Fréttablaðsins að kynnast þeim betur.



Ása Ninna og Guðmundur, sambýlisfólk, reka saman GK Reykjavík

Hvernig atvikaðist það að þið fóruð að vinna saman?

Ása Ninna: Við höfum alltaf átt þann draum að geta byggt eitthvað saman upp frá grunni. Við höfum bæði áhuga á tísku og hefur Gummi rekið fyrirtæki í fjölda ára. Svo þegar við sáum þetta tækifæri gátum við ekki annað en stokkið á það.

Hvernig gengur að vinna svo náið með hvort öðru?

Guðmundur: Við erum tiltölulega nýbyrjuð að vinna svona mikið saman og hefur það gengið mjög vel. En við finnum samt strax að það þarf að vanda sig mjög mikið til að skilja að heimilislífið og fyrirtækjareksturinn. Það getur stundum verið svolítið mikið þegar við erum farin að fara yfir stöðu reikninga og næstu pantanir þegar við erum að bursta tennurnar.

Hver er helsti kostur Guðmundar?

Ása Ninna: Helsti kosturinn hans Gumma er hvað hann er ábyrgðarfullur og alltaf með allt á hreinu. Svo er hann yfirmáta duglegur og metnaðarfullur.

Hver er helsti kostur Ásu Ninnu?

Guðmundur: Helstu kosturinn við Ásu Ninnu er hvað hún er bjartsýn og jákvæð. Hún hefur líka rosalega mikinn metnað fyrir þessu verkefni okkar og vegum við hvort annað upp.

Edda og Sólveig Ragna - Systur
Edda og Sólveig. Mynd/Daníel Rúnars
Edda og Sólveig hanna fatnað undir heitinu Shadow Creatures



Hvernig atvikaðist það að þið fóruð að vinna saman?


Edda: Okkur hefur alltaf langað til að vinna saman, og þegar Sólveig flutti til Íslands eftir nám í Danmörku sáum við kjörið tækifæri til að vinna saman. Okkur semur svo vel og tískuhjartað okkar slær svo vel í takt.

Sólveig: Við höfum alltaf verið mjög samrýmdar og góðar systur og höfðum lengi talað um að fara út í eitthvað skemmtilegt samstarf. Þess vegna lá þetta beint við þegar ég kom heim úr námi frá Danmörku rétt fyrir jól 2009. Við lögðum drög að samstarfinu strax í byrjun árs 2010 og út frá því gerðist þetta einhvern veginn bara af sjálfu sér.

Hvernig gengur að vinna svo náið saman?

Edda:Það gengur mjög vel að vinna saman, við pössum vel upp á hvor aðra og nýtum mismunandi hæfileika okkar til hins ýtrasta. Við kunnum samt alveg að að rífast, en við kunnum líka alveg að sættast.

Sólveig: Það gengur bara rosalega vel. Edda er fatahönnuður en ég arkitekt þannig að við erum með ólíkan bakgrunn þótt báðar séum innan skapandi geira. Það gerir okkar sterkar á mismunandi sviðum svo við bætum hvor aðra upp og erum óstöðvandi saman fyrir vikið. Við erum mjög samstilltar og duglegar að peppa og hvetja hvor aðra. Við fíflumst líka mikið saman, ekki síst á álagstímum til að létta andrúmsloftið. Auðvitað rífumst við stundum eins og öll systkini. Yfirleitt ristir það þó ekki dýpra en svo að ekki sé hægt að laga það með smá snarli. Við verðum báðar rosa pirraðar þegar við erum svangar!

Hver er helsti kostur Sólveigar?

Edda: Sólveig er einstaklega hæfileikarík á svo stóru sviði. Hún er líka mjög fyndin og það er svo gaman að vinna með henni. Það er erfitt að nefna bara einn hlut hérna. Svo er hún líka rosalega umburðarlynd þegar ég er erfið! Hún er jarðtengingin mín og besti vinur minn.

Hver er helsti kostur Eddu?

Sólveig: Í okkar samstarfi hlýtur helsti kostur Eddu að vera sá hvað hún er hæfileikaríkur hönnuður. Ég læri helling á að fylgjast með henni að störfum. Hún er líka mjög jákvæð, fyndin og skemmtileg að eðlisfari.

Sigyn og Mundi - Mæðgin
Mundi og Sigyn. Mynd/Jói Kjartans
Mundi er hönnuður eigin merkis og Sigyn framkvæmdastjóri



Hvernig atvikaðist það að þið fóruð að vinna saman?


Sigyn: "Mér fannst Mundi vera að gera svo frábæra hluti í fatahönnun og ákvað að skella mér með í slaginn og við stofnuðum saman fyrirtækið MUNDI."

Mundi: "Ég fór til mömmu og sagði: "Hey, þessar peysur sem ég var að gera eru að fá mikla athygli. Ættum við kannski að stofna fatamerki saman?"

Hvernig gengur að vinna svo náið með hvort öðru?


Sigyn: "Þetta var svolítið mikil samvera til að byrja með þegar við vorum bara tvö í fyrirtækinu og hann bjó enn heima. En eftir að hann flutti að heiman gat ég hætt í mömmuhlutverkinu og við erum alveg ótrúlega góðir vinir og gengur mjög vel að vinna saman."

Mundi: "Það var stundum strembið fyrstu árin en nú er það lauflétt og yndislegt."

Hver er helsti kostur Munda?

Sigyn: "Helsti kostur Munda er auðvitað hvað hann er frábær hönnuður og listamaður. Hann er líka mjög einbeittur og smámunasamur með sína hönnun, hvort sem það er fatahönnun, grafísk hönnun, myndlist eða kvikmyndagerð."

Hver er helsti kostur Sigynjar?

Mundi: "Hún heldur öllu batteríinu saman. Hún er mjög skipulögð, skynsöm og ábyrgðarfull og svo hefur hún talsvert meira vit á peningum en ég."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.