Lífið

Setur sig í spor fíkils og fegurðardrottningar

Setur sig í stellingar María Birta Bjarnadóttir hefur látið ljósu lokkana víkja fyrir bleikum en það er þó ekki í tengslum við hlutverk fíkils og fegurðardrottningar í kvikmyndinni Svartur á leik sem tökur hefjast á í næsta mánuði. Fréttablaðið/vilhelm
Setur sig í stellingar María Birta Bjarnadóttir hefur látið ljósu lokkana víkja fyrir bleikum en það er þó ekki í tengslum við hlutverk fíkils og fegurðardrottningar í kvikmyndinni Svartur á leik sem tökur hefjast á í næsta mánuði. Fréttablaðið/vilhelm
Orgíur, fíkniefni og blákaldur veruleiki íslenska undirheimsins eru helstu viðfangsefni kvikmyndarinnar Svartur á leik sem fer í tökur í næsta mánuði í leikstjórn Óskars Þórs Axelssonar. María Birta Bjarnadóttir fer með stærsta kvenhlutverk myndarinnar og býr sig undir krefjandi tökuferli.

„Leikstjórinn sagði við mig að búa mig undir það að vera drukkin í langan tíma. Það er að segja óbeint, þar sem karakterinn minn er á einhverjum eiturlyfjum eða full nánast alla myndina,“ segir María Birta en hlutverkið sem um ræðir er Dagný, fyrrverandi fegurðardrottning og núverandi fíkill. „Dagný er alveg týnd í tilverunni en algjör töffari og ein af strákunum.

Hún er frökk og brennd á lífinu,“ segir María og viðurkennir að það sé kvíðablandin spenningur hjá henni að takast á við svona krefjandi hlutverk. Hún er þegar byrjuð að vinna rannsóknarvinnu og er að horfa á kvikmyndir á borð við Blow, Boogie Nights og Traffic til að koma sér í rétta gírinn.

Kvikmyndin Svartur á leik er byggð á samnefndri metsölubók Stefáns Mána sem kom út árið 2004 en bókin þykir bregða upp ansi svæsinni en trúverðugri mynd af íslenska glæpaheiminum. María Birta hefur lesið handritið nokkrum sinnum og segir að myndin verði alveg jafn gróf og bókin.

„Ég fékk hálfgert áfall í fyrsta sinn sem ég las handritið og á fyrsta fundinum með Óskari vildi ég mest fá að vita hvernig hann hafði hugsað sér að taka upp kynlífsatriðin en þau eru þónokkur í handritinu. Það skiptir miklu máli hvernig svoleiðis senur eru teknar til að þetta líti vel út,“ segir María Birta en hún vílar ekki fyrir sér að sýna bert hold og vakti fyrst athygli í unglingamyndinni Óróa þar sem hún gerði einmitt slíkt hið sama.

„Ég er búin að undirbúa mig vel fyrir þetta og er umkringd fagmönnum sem vita hvað þeir eru að gera. Ég finn að ég er alveg örugg í þeirra höndum en auðvitað ræð ég sjálf hversu fáklædd ég vil vera og það á bara eftir að koma í ljós.“

Hitt aðalhlutverk myndarinnar er í höndum leikarans Þorvalds Davíðs Kristjánssonar en bæði eru þau að leika sín fyrstu burðarhlutverk í íslenskri kvikmynd.

„Ég þekkti hann ekkert fyrir en við hittumst um daginn á æfingu og okkur kom vel saman. Það er gaman fyrir okkur að fá þetta tækifæri og sýna hvað við getum,“ segir María Birta en fyrir nokkrum mánuðum lét hún hafa það eftir sér í viðtali að hún útilokaði ekki að koma fram í svæsnasta kynlífsatriði íslenskra kvikmyndasögu, gæti það verið raunin í myndinni Svartur á leik? „Þegar ég sagði þetta var ég einmitt nýbúin að lesa þetta handrit og datt alveg í hug að eitthvað í þá áttina gæti verið í bígerð.“

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.