Lífið

Íslandsmeistaramót í Ólsen ólsen

Dabbi Rú býst við fjölmörgum keppendum á Íslandsmeistaramótið í Ólsen ólsen á laugardaginn.
Dabbi Rú býst við fjölmörgum keppendum á Íslandsmeistaramótið í Ólsen ólsen á laugardaginn.
„Það er kominn tími á að sýna og sanna í eitt skipti fyrir öll hver er bestur,“ segir Davíð Rúnarsson, eða Dabbi Rú, eigandi Gullaldarinnar í Grafarvogi.

Opna Íslandsmeistaramótið í Ólsen ólsen verður haldið á Gullöldinni á laugardaginn. Sigurvegarinn fær glæsilegan bikar í sinn hlut ásamt því að þátttökugjaldið rennur óskipt í verðlaunafé.

Dabbi segir að titillinn sé stór og að ýmislegt fylgi því að vera Íslandsmeistari í þessu aldagamla spili. „Það er ekki bara mikil kvenhylli sem fylgir þessu heldur fylgir mikil athygli fjölmiðla og virðing í undirheimum,“ segir hann. „Þetta er náttúrulega spil spilanna og sýnir klókindi og kænsku.“

Útsláttarfyrirkomulag verður á mótinu og Dabbi segist geta tekið á móti allt að 200 keppendum. Í fyrstu umferðunum er spilað einn á einn og sá sem fyrr vinnur tvö spil fer áfram. Þegar lengra verður komið í mótið þarf að vinna þrjú spil til að komast áfram.

„Það er mjög mikill áhugi fyrir mótinu,“ segir Dabbi, sem er viss um að mætingin verði góð. „Fólk er heitt fyrir þessu. Ég get lofað að það verður alveg pakkað hérna.“

En nú eru ömmur sérstaklega slyngir Ólsen ólsen-spilarar. Eru þær sérstaklega hvattar til að mæta?

„Já. Alveg sérstaklega eins og allir. Það verður nýliðakennsla ef svo ólíklega vill til að einhver kunni ekki reglurnar.“- afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.