Lífið

Booka Shade vill íslenskt nammi

þýskir nammigrísir Booka Shade vill nóg af íslensku nammi í búningsherbergi sitt í Laugardalshöll.
þýskir nammigrísir Booka Shade vill nóg af íslensku nammi í búningsherbergi sitt í Laugardalshöll.
Þýska tvíeykið Booka Shade vill fá íslenskt sælgæti og nóg af því í búningsherbergi sitt í Laugardalshöll.

Booka Shade kemur fram á aðdáendahátíð íslenska EVE Online, í Laugardalshöll á laugardaginn, en hátíðin hefst í dag. Þeir Walter Merziger og Arno Kammermeier, sem skipa tvíeykið, hafa áður komið til landsins og kynntust þá greinilega lystisemdum íslenska sælgætisins. Þeir biðja sérstaklega um súkkulaði-, lakkrís og marsípansæluna Tromp, en taka fram á kröfulistanum að það verði að vera nóg af öðrum tegundum.

Félagarnir eru augljóslega miklir matmenn því þeir vilja pitsur, hamborgara og kjúklingavængi eftir tónleikana ásamt nógu af áfengi; viskíi, vodka, kampavíni og orkudrykknum Red Bull. Þá vilja þeir gott úrval af íslenskum snafsi og því má búast við að skipuleggjendur bjóði þeim upp á Brennivín, en fáir útlendingar sleppa úr landinu án þess að smakka það.

Booka Shade-drengirnir báðu sérstaklega um að fá aðgang til að spila EVE Online, en óvíst er hvort þeir hafi prófað leikinn. Loks óskuðu þeir eftir að eftirpartí yrði haldið þeim til heiðurs í kjallara skemmtistaðarins Rex. Hann er ekki til lengur og ekki heldur Jacobsen, sem opnaði síðar í sama húsnæði. Kaffihúsið Laundromat er núna í húsnæðinu og var þeim því tjáð að kjallarinn væri í dag sérstaklega ætlaður börnum. Eftirpartíið verður því á Kaffibarnum. - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.