Lífið

Robocop og Terminator í Bíó Paradís

vísindaskáldskapur Haukur Viðar hyggst kynna klassískar sci-fi myndir fyrir áhugasömum.Fréttablaðið/
vísindaskáldskapur Haukur Viðar hyggst kynna klassískar sci-fi myndir fyrir áhugasömum.Fréttablaðið/
„Þetta eru myndir sem rosalega margir hafa séð í sjónvarpi en ekki í kvikmyndahúsi,“ segir Haukur Viðar Alfreðsson, formaður Sci-Fi klúbbsins Zardoz í Bíó Paradís.

Klúbburinn var stofnaður fyrir skömmu og heldur fyrstu sýninguna á morgun. Þá verða sýndar kvikmyndirnar The Terminator frá 1984 og Robocop frá 1987 sem eru að sögn Hauks tvær af helstu Sci-Fi kvikmyndastórvirkjum níunda áratugarins. Hann segir myndirnar tvær höfða til ótrúlega stórs hóps. „Ekki bara til sci-fi ofurnörda,“ segir Haukur. „Mér fannst sterkur leikur að byrja á myndum sem fleiri hefðu mögulega áhuga á að sjá til að kynna klúbbinn fyrir fólki.“

Sci-Fi klúbburinn Zardoz er með mánaðarlegar sýningar í Bíó Paradís og ætlar að sýna alls konar myndir frá ýmsum tímabilum, bæði klassísk stórvirki sem og minna þekktar B-myndir. Sýningarnar eru síðasta föstudag hvers mánaðar. „Við ætlum ekki að horfa á Star Trek allan daginn,“ segir Haukur í léttum dúr. „Sci-Fi myndir eru alls konar. Þær leka oft inn í aðra flokka, eins og hasar og jafnvel hrylling. Ég býst við að þetta verði ekki bara sveittir karlmenn í Nexusbolum þó ég voni svo sannarlega að það verði eitthvað um þá. Þeir eru hjartanlega velkomnir.“

Miðasala gengur vel að sögn Hauks. Svo vel að sýningin hefur verið færð úr sal tvö í sal eitt. Miðasala fer fram í Bíó Paradís og á Midi.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.