Lífið

Spurlock sækir Ísland heim

Einn vinsælasti heimildarmyndagerðarmaður heims um þessar mundir, Morgan Spurlock, sækir Ísland heim í næstu viku. Hann hyggst sýna nýjustu kvikmynd sína, The Greatest Movie Ever Sold, í Háskólabíói miðvikudaginn 24. ágúst og sitja svo fyrir svörum. Myndin fjallar um svokallaðar vöruinnsetningar í bandarískum afþreyingariðnaði en áhorfendur fá að fylgjast með því hvernig leikstjóranum tekst að fjármagna áðurnefnda heimildarmynd með slíkum innsetningum.

Spurlock varð heimsfrægur fyrir kvikmynd sína, Supersize Me, sem fjallaði um McDonald's-veldið. Leikstjórinn hét því að draga lífið einungis fram á hamborgurum frá McDonald's og hann mátti aldrei segja nei væri honum boðið að stækka máltíðina. Myndin gekk mjög nærri heilsu Spurlocks en vakti jafnframt feikilega mikla athygli.

Næsta mynd Spurlocks, um Osama bin Laden og hvar hryðjuverkaleiðtoginn væri niðurkominn, vakti ekki síður mikla athygli. „Hann er ein skærasta stjarnan í heimildarmyndaflokknum og höfðar til mjög breiðs hóps," segir Ísleifur B. Þórhallsson hjá Græna ljósinu sem hefur veg og vanda af komu Spurlocks. Leikstjórinn kemur til landsins ásamt eiginkonu sinni og ætla þau að njóta lífsins í Reykjavík og nágrenni í nokkra daga.

- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.