Lífið

Fyrirsæta með læknisfræðina í forgangi

Elmar Johnson og Kolfinna Kristófersdóttir eru komin á samning hjá Next.
Elmar Johnson og Kolfinna Kristófersdóttir eru komin á samning hjá Next.
Umboðsskrifstofan Next hefur bætt tvemur íslenskum fyrirsætum á skrá hjá sér. Umboðsskrifstofan er ein sú stærsta í heiminum og er með skrifstofur í London, New York, Mílanó og París auk annara borga og hafa fyrirsætur á borð við Milla Jovovich, Abbey Lee, Miröndu Kerr og Önju Rubik verið á mála hjá skrifstofunni.

Fyrirsæturnar Elmar Johnson og Kolfinna Kristófersdóttir, sem eru bæði á skrá hjá Eskimó, voru valin úr stórum hópi fyrirsæta af einum fremsta útsendara Next skrifstofunnar. Andrea Brabin, eigandi Eskimo, segir Next skrifstofuna vera mjög vandláta þegar kemur að því að taka inn nýjar fyrirsætur á skrá og því séu þetta stórskemmtilegar fréttir.

Elmar skrifaði undir samning hjá Eskimo í ágúst á síðasta ári. Hann er þó ekki alls óreyndur í fyrirsætubransanum því hann hefur tekið að sér ýmis fyrirsætuverkefni frá tíu ára aldri. Elmar flýgur til New York í lok maí eftir að skóla lýkur en hann er á fjórða ári í læknisfræði við Háskóla Íslands. Hann segir samninginn hafa komið sér mikið á óvart en er spenntur fyrir að takast á við ný og spennandi verkefni.

„Ég neita því ekki að þetta er spennandi tækifæri og það verður gaman að fara út sjá hvað er í boði og hvernig hlutirnir þróast," segir Elmar sem mun dvelja í borginni sumarlangt ásamt kærustu sinni sem fer með honum út.

Inntur eftir því hvernig gangi að samræma námið og fyrirsætustarfið segir Elmar það hafa gengið nokkuð vel hingað til en að námið hafi ávallt forgang. „Maður þarf aðeins að hliðra til hér og þar en hingað til hefur þetta gengið nokkuð vel," segir hann að lokum.

sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.