„Þetta var ansi fyndið," segir Árni Hjörvar Árnason, bassaleikari bresku hljómsveitarinnar The Vaccines.
The Vaccines kemur fram í nýju kynningarmyndbandi snyrtivöruframleiðandans Rimmel, ásamt ofurfyrirsætunni Kate Moss. Moss er í aðalhlutverki í myndbandinu og kemur meðal annars við í myndveri þar sem The Vaccines er að spila lag sitt, Do You Wanna.
Hægt er að sjá myndbandið hér á heimasíðunni Dailymotion.com.
Myndbandið var tekið upp um mánuði fyrir brúðkaup Kate Moss og tónlistarmannsins Jamie Hince. „Hún var alveg á kafi í því að plana allt," segir Árni. „Hún sagðist ætla að fara með gæsapartíið sitt á tónlistarhátíðina Isle of Wight og bað um að fá að koma með gæsirnar upp á svið á meðan við vorum að spila. Kate Moss og fimmtán eftirlíkingar upp á svið, við afþökkuðum."
Leikstjóri myndbandsins gerðist svo kræfur að biðja Árna um að daðra við Kate Moss meðan á tökum stóð. Honum fannst hún vera feimin og vildi láta henni líða betur, en á augnabliki í myndbandinu sést að Árna tókst að kæta ofurfyrirsætuna.
„Þetta var fyrsta og væntanlega eina skiptið sem ég fæ tækifæri til að daðra við Kate Moss," segir Árni í léttum dúr. „Gamall draumur allra karlmanna á mínum aldri, ekki satt?" - afb
Beðinn um að daðra við Kate Moss
