Það kemur enginn að tómum kofanum þegar Steindi Jr. er annars vegar. Þorsteinn Bachmann fær hann hér til að gera atriði fyrir Fiðrildaviku UN Women og Steindi fer strax á flug.
UN Women á Íslandi stendur fyrir Fiðrildaviku 12. til 18. september með það að markmiði að hvetja Íslendinga til að standa með "systrum" sínum víða um heim. Þema fjáröflunarvikunnar er fiðrildið; þar sem ætlunin er að hafa fiðrildaáhrif héðan frá Íslandi því eitthvað lítið, eins og vængjasláttur örsmárra fiðrilda, getur haft gríðarleg áhrif á veðurkerfi hinum megin á hnettinum.
Markmið Fiðrildavikunnar er að hvetja landsmenn til þess að skrá sig sem styrktaraðila í Systralag UN Women. Framlög til Systralagsins renna til UN Women sem er eina stofnun Sameinuðu þjóðanna sem berst fyrir bættum hag kvenna í fátækustu löndum heims.
Fjölmargir leggja hönd á plóg þessa vikuna, þeirra á meðal Steindi, Þorsteinn og Ágúst Bent sem gáfu vinnu sína við þetta stórskemmtilega atriði.
Nánari upplýsingar um UN Women má finna á unwomen.is og á Facebook-síðu samtakanna.
