Lífið

Eygló Gunnþórsdóttir opnar sína fyrstu málverkasýningu

Eygló Gunnþórsdóttir
Eygló Gunnþórsdóttir
Eygló Gunnþórsdóttir opnaði sína fyrstu málverkasýningu í Ráðhúsi Reykjavíkur þann 15. júlí síðastliðinn og var vel mætt. Hún eyddi áður mestum hluta tíma síns í að vinna fyrir dóttur sína, Ásdísi Rán Gunnarsdóttur, en hefur nú látið listamannsdrauminn rætast.

Eygló segist ekki hafa lagst í listsköpunina að neinu ráði fyrr en fyrir um fimm árum, þrátt fyrir að hafa málað og teiknað frá unga aldri."Ég fór ekkert að mála fyrr en krakkarnir voru fluttir að heiman. Í millitíðinni veiktist ég, og ég málaði í gegnum veikindin mín." bætir hún við, en Eygló sigraðist á veikindum sínum og er hraust í dag.

"Áður en ég fór að mála var ég að vinna, mest og aðallega fyrir Ásdísi Rán, dóttur mína. Ég hef verið að hjálpa henni rosalega í gegnum árin. Unnið fyrir hana baki brotnu þegar hún er hérna heima og verið mikið úti með henni." Segir Eygló, en islenska fyrirsætan Ásdís Rán hefur meðal annars setið fyrir á myndum sem birtust í karlatímaritinu Playboy í Búlgaríu, Þýskalandi og Austurríki.

Eygló segist vera hrifin af því að nota glaðlega liti og sjá má að í málverkum hennar mætast oft ólík áhrif. "Mér finnst gaman að gera bæði abstrakt myndir og svo landslagsmyndir af íslenskri náttúru." Hún segist þó ekki vera undir áhrifum frá neinum sérstökum listamönnum, hún fari heldur sínar eigin leiðir.

Sýning Eyglóar í Ráðhúsinu verður opin til 25. júlí næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.