„Einhvern veginn kom þetta manni á óvart því maður hélt að Pinetop Perkins væri eilífur," segir Halldór. „Ég frétti þetta frá fjölskyldunni hans. Hann var að leggja kapal, fór út að reykja sígarettu og fannst hann vera slappur. Svo fékk hann hjartaáfall í svefni."
Perkins kom þrisvar til Íslands, síðast árið 2009, þegar hann var gerður að heiðursfélaga Blúsfélags Reykjavíkur. „Hann er guðfaðir íslenska blússins. Ég er feginn að hafa fengið karlinn hingað enda var það algjör töfrastund þegar hann spilaði hérna," segir Halldór, sem hitti Perkins síðast í fyrra þegar blúsarinn aldni tók þátt í myndbandsverki listamannsins Ragnars Kjartanssonar, The Man.

Perkins hafði ekki drukkið áfengi í fjórtán ár þegar hann dó. „En hann fékk sér hamborgara, reykti sígó, fékk sér eplaböku og brosti og hló. Það var eitthvað ótrúlegt við hann. Það var ekkert sem fór í taugarnar á honum," segir Dóri um vin sinn.
„Þetta er mesta ljúfmenni sem ég hef nokkurn tímann hitt á ævinni."- fb