Enski boltinn

Pearce um Beckham: Er hann ekki orðinn aðeins of gamall fyrir 21 árs liðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham.
David Beckham. Mynd/Nordic Photos/Getty
Stuart Pearce, nýráðinn þjálfari Ólympíuliðs Breta, er ekki tilbúinn að útiloka það að Ryan Giggs verði með breska liðinu á Ólympíuleikunum í London á næsta ári. Hann er hinsvegar ekki eins spenntur fyrir David Beckham.

„Ég loka ekki dyrunum á einn eða neinn sérstaklega ekki þegar við erum að tala um mann eins og Ryan Giggs. Það er mikilvægt að við verðum með okkar sterkasta lið svo að við getum unnið Ólympíugullið. Við þurfum að sýna það besta við breskan fótbolta á okkar heimavelli," sagði Stuart Pearce.

David Beckham er tveimur árum yngri en Giggs og hefur þegar gefið það út að hann vilji fá að vera með í Ólympíuliðinu.

„Ég veit ekki um Beckham. Ég hef ekki séð hann spila nýlega. Er hann ekki orðinn aðeins of gamall fyrir 21 árs liðið?," sagði Stuart Pearce og bætti við:

„Það koma allir til greina því enska knattspyrnusambandið hefur sagt mér að þetta val sé algjörlega undir mér sjálfum komið," sagði Pearce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×