Lífið

Maðurinn á bak við Palla

Coco Viktorsson á heiðurinn að mörgum af skrautlegustu búningum Páls Óskars.
Coco Viktorsson á heiðurinn að mörgum af skrautlegustu búningum Páls Óskars.
Skrautlegur klæðaburður er stór hluti af ímynd tónlistarmannsins Páls Óskars Hjálmtýssonar og setur jafnan skemmtilegt yfirbragð á tónleika hans, enda er sjónarspil ekki síður mikilvægt en hressir tónar.

Coco Viktorsson veit allt um það enda maðurinn á bak við marga af skrautlegustu búningum söngvarans.

„Palli er einn af mínum bestu vinum og ég hef saumað á hann fatnað um margra ára skeið, bæði áður og eftir að hann varð þekktur," segir Coco og bætir við að frægðin hafi engu breytt, Páll Óskar sé alltaf jafn þægilegur í samstarfi.

„Auðvitað hefur hann sínar skoðanir og fær að hafa úrslitaáhrif á útkomuna, en hann er ávallt opinn fyrir nýjum hugmyndum."

Coco Viktorsson. Mynd/Ragnheiður Hrönn
Fatahönnun hefur verið Coco hugleikin um langt skeið. Aðeins fjórtán ára var hann sestur við saumavél stjúpmóður sinnar í Perú, þar sem hann er fæddur og uppalinn. „Frumraunin var eftirlíking af buxum sem mig langaði í en hafði ekki efni á. Útkoman var fullkomin en ekki vildi þó betur til en svo að þær hlupu strax í fyrsta þvotti," minnist hann og hlær og segist þannig hafa lært sína lexíu. „Að nota bara vönduð efni í saumaskapinn."

Coco fer eigin leiðir í saumaskapnum og fær gjarnan hugmyndir á ferðalögum um heiminn. Hann segist lengi vel ekki hafa séð fatasaum sem framtíðarstarf en ákvað að láta á reyna fyrir tveimur árum þegar hann skellti sér í klæðskeranám í Tækniskólanum.

„Ég gerði það til að læra betur að koma hugmyndunum frá mér," útskýrir Coco, sem langar helst að komast á mála hjá einum af stóru tískuhúsunum. „Draumurinn er París."

Næst liggur þó fyrir stórt verkefni, tónleikar Páls Óskars í Hörpunni í júní. „Þetta verður heilmikil sýning, fullt af nýjum skemmtilegum búningum sem hafa ekki áður sést," segir Coco og er ekki frá því að margir eigi eftir að reka upp stór augu þegar poppgoðið stígur á svið.

roald@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.