Lífið

Íslenskur tökumaður í grænlenskri hryllingsmynd

„Þetta var þvílíkt ævintýri. Það kom mér á óvart hve margir Grænlendingar eru virkilega hæfileikaríkir án þess að hafa „professional" reynslu," segir Freyr Líndal Sævarsson.

Hann var tökumaður grænlensku hryllingsmyndarinnar Qaqqat Alanngui eða Skuggarnir í fjöllunum, sem var frumsýnd fyrir skömmu á vegum Tumit Productions. Hún hefur fengið mjög góðar viðtökur í heimalandinu og hafa tæp sex þúsund manns séð hana í höfuðborginni Nuuq þar sem rúm fimmtán þúsund manns búa.

Tökur á myndinni fóru fram skammt frá Nuuq síðasta sumar og gengu þær vel þrátt fyrir að veðrið og ágengar moskítóflugur hafi sett strik í reikninginn. Freyr Líndal fékk verkefnið, sem er hans fyrsta sem tökumaður, í gegnum stelpu sem var með honum í European Film College í Danmörku. Hann hefur aðra hryllingsmynd á ferilsskránni, Reykjavík Whale Watching Massacre, þar sem hann vann við lýsingu.

Freyr tók Quaqqat Alanngui upp á Canon 5D-myndavél og notaðist við náttúrulega lýsingu. Kostnaðaráætlun myndarinnar hljóðaði upp á 46 milljónir króna og komu allir leikararnir og tökuliðið frá Grænlandi nema Freyr. Myndin fjallar um ungt fólk sem fer í útskriftarferð í afskekktum sumarbústað þar sem undarlegir hlutir eiga sér stað.

Grænlendingar hafa tekið myndinni opnum örmum, sérstaklega unga kynslóðin. „Fólk hefur ekki séð svona í grænlenskri menningu," segir hann og á þar við þjóðsagnakenndan blæ myndarinnar og grænlenskt talið í þokkabót.

Frey líkaði lífið svo vel á Grænlandi að hann ætlar að taka upp aðra mynd þar á næsta ári, eða spennuhasar með grínívafi.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.