„Við erum bara búnir að fara á hnefanum í gegnum þessa mynd,“ segir Elvar Gunnarsson, kvikmyndagerðarmaður og höfundur kvikmyndarinnar Einn. Elvar útskrifaðist úr Kvikmyndaskóla Íslands árið 2005 og hóf að vinna hjá skólanum í kjölfarið. „Ég var deildarstjóri í Kvikmyndaskólanum en ég hætti til þess að gera þessa mynd,“ segir Elvar.
Myndin fjallar um Helga, íslenskan listamann, sem býr inni á góðvini sínum, konu hans og barni. Helgi ákveður að framleiða sína fyrstu kvikmynd sem byggð er á hans eigin ævi, en framleiðendur myndarinnar krefjast handritsbreytinga. Um leið og Helgi fer að breyta vissum hlutum í handritinu, fara hlutirnir að skila sér í hversdagslíf hans og af stað fer atburðarás sem Helga gat ekki órað fyrir.
Elvar segist hafa verið lengi að velja í hlutverkin, en myndin ku vera rómantísk, svört gamanmynd og í senn söngva- og dansmynd. „Ég ákvað að fá aðallega fersk andlit og var svolítinn tíma að finna þau. Eftir mikla leit fann ég Arnþór Þórsteinsson, sem fer með aðalhlutverkið í myndinni,“ segir Elvar, en þetta er fyrsta kvikmynd Arnþórs. Með önnur hlutverk fara þau María Ellingsen og Darren Foreman, en Darren fór með hlutverk í sjónvarpsþáttunum The West Wing og hefur kennt við Kvikmyndaskóla Íslands frá árinu 2007.- ka
Íslensk söngva- og dansmynd á leiðinni
