Lífið

Nilli gengur til liðs við Týndu kynslóðina

Björn Bragi, Þórunn Antonía og Nilli munu leiða saman hesta sína í nýjum skemmtiþætti.
Björn Bragi, Þórunn Antonía og Nilli munu leiða saman hesta sína í nýjum skemmtiþætti.
„Okkur finnst mjög skemmtilegt að fá Nilla til liðs við okkur," segir Björn Bragi Arnarsson, annar af stjórnendum sjónvarpsþáttarins Týnda kynslóðin, sem hefur göngu sína á Stöð 2 í ágúst.

Hinn skeleggi Níels Thibaud Girerd, best þekktur sem Nilli, hefur gengið til liðs við Björn Braga og Þórunni Antoníu og verður þeim til aðstoðar í nýju þáttunum. Nilli byrjaði með vefþætti fyrir vikuritið Monitor á Mbl.is í fyrra í kjölfar viðtals við hann og tónlistarmanninn Berndsen á Iceland Airwaves. „Hann verður eins konar hjálparkokkur og fer í sérverkefni," segir Björn og bætir við að hann líti á Nilla sem son. Það kemur ekki á óvart þar sem Björn Bragi var ritstjóri Monitors og átti hugmyndina að þáttum Nilla í samstarfi við vikuritið.

Nafn þáttanna, Týnda kynslóðin, er vísun í frægt lag Bjartmars Guðlaugssonar, en það býr meira að baki að sögn Björns. „Mér finnst þetta skemmtilegt nafn," segir hann. „Þátturinn á að höfða til allra kynslóða og ég held að allar kynslóðir líti á sig sem týndu kynslóðina. Ekki bara ungt fólk í dag. Þetta er svolítið opið og létt nafn sem mér fannst viðeigandi fyrir það sem við ætlum að gera."

Týnda kynslóðin verður, að sögn Björns Braga, skemmtiþáttur sem á að höfða til breiðs hóps. „Við verðum í opinni dagskrá á föstudagskvöldum og við viljum ná sem flestum að skjánum," segir hann. „Þetta verður blanda af spjallþætti og innslögum þar sem gestirnir taka virkan þátt í dagskrárgerðinni."- afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.