Ben Stiller, Vince Vaughn og Rosemarie DeWitt hafa öll fallist á að leika í gamanmyndinni Neighborhood Watch. Seth Rogen og Evan Goldberg eiga heiðurinn að handritinu en það var fínpússað af Justin Theroux, ástmanni Jennifer Aniston og handritshöfundi Tropic Thunder.
Stiller leikur mann sem ákveður að flytja fjölskylduna sína úr miðborg í úthverfi í von um rólegra líf. Hann kemst hins vegar á snoðir um að nokkrir íbúar stundi nágrannavörslu og lætur tilleiðast, enda býst hann ekki við öðru en að verkefnin felist í fullum unglingum og skemmdarverkum. Annað kemur hins vegar á daginn þegar geimverur koma í heimsókn. Akiva Schaffer mun leikstýra myndinni en hann gerði síðast Hot Rod.
Gott grín í fæðingu
