Lífið

Kanye átti Tívolí í Köben

Kanye West var svalur á sviðinu í Tívolí í Kaupmannahöfn í síðustu viku.
Kanye West var svalur á sviðinu í Tívolí í Kaupmannahöfn í síðustu viku. Nordicphotos/Getty
Bandaríski tónlistarmaðurinn Kanye West tróð upp í Tívolíinu í Kaupmannahöfn í síðustu. Íslendingaskarinn þar var slíkur að greina mátti íslensku úr öllum áttum. Orðin „þetta er geðveikt“ og „alger unaður“ voru algengust. Birgir Þór Harðarson var á svæðinu og lýsir hér upplifun sinni.

Það var grenjandi rigning þegar fyrirpartíið hófst á Norðurbrú fimmtudaginn 11. ágúst. Tívolí-garðinum var lokað um daginn svo hægt væri að gera klárt fyrir tónleikana og hann opnaður aftur klukkan 18. Tónleikarnir sjálfir hófust ekki fyrr en klukkan 22 um kvöldið.

Ég heyrði af fullt af fólki sem hafði mætt á slaginu 18 og fengið mjög gott pláss framarlega í mannhafinu. Við mættum þegar klukkan var farin að ganga tíu og fengum því ekkert ofboðslega gott pláss. Það var þó í lagi því risastór skjár sýndi öll smáatriðin sem ég hefði annars misst af.

Það var ótrúlegt hversu rúmt var um alla 15.000 tónleikagestina á tónleikasvæðinu í Tívolí. Svæðið er nefnilega ekki mjög stórt.

Rigningin buldi á gleraugunum mínum þegar kunnuglegir tónar heyrðust. Hr. West hóf tónleikana á Dark Fantasy af síðustu sólóplötu sinni, My Beautiful Dark Twisted Fantasy. Kanye-menn vita að fyrsta línan í laginu er á „Can we get much higher?“ eða „komumst við nokkuð hærra?“. Hr. West sannaði að hann kæmist hærra því upp úr miðjum mannskaranum reis lyfta og fyrir ofan okkur stóð Kanye og sagði: „Ég hafði ímyndað mér þetta í Chicago!“.

Hr. West hefði ekki getað sett viðmiðið hærra en í þessu fyrsta lagi. Hann hélt áfram að toppa sjálfan sig í gegnum alla tónleikana þar sem hann tók alla slagarana sína.

Flottur á sviðiEn það voru ekki aðeins ljúfir og auto-tjúnaðir tónar hr. West sem gerðu tónleikana að ótrúlegri upplifun. Kanye West bjó nefnilega til flottasta sjónarspil sem ég hef séð á tónleikum síðan ég sá Sigur Rós í Höllinni. Dansarar geta gert helling fyrir sýninguna og þegar þeir eru að veifa risastórum segldúki yfir öllu sviðinu erum við jafnvel að tala um eitthvað mjög kúl. Ljósin voru einnig geðveik og sviðsreykurinn gerði ljósin enn svalari.

En ekki hvaða band sem er getur skapað svona stemningu. Kanye West hefur það fram yfir marga að hann er alveg drullusvalur! Fötin sem hann hóf tónleikana í voru óendanlega töff og svo áður en ég vissi af var hann mættur í einhvern nettasta leðurjakka sem ég hef séð. Og það sást í uppklappinu að hann var ánægður með hversu kúl hann er.

UppklappiðÉg vissi eiginlega ekki að tónleikarnir væru búnir því fagnaðarlætin voru svo gríðarleg þegar laginu Stronger lauk og sviðið hvarf í reyk. Ætli það hafi ekki liðið svona tvær mínútur áður en E-nótan sem markar upphaf lagsins Runaway hljómaði. Þegar reykurinn steig til himna birtist hr. West í rauða jakkanum, á upphækkun á sviðinu fyrir framan hljómborð.

Það tóku allir undir þegar hann hóf upp auto-tjúnaða rödd sína í síðustu lögunum.

Það var ekki fyrr en tónleikarnir voru búnir að ég áttaði mig á því hversu gegnvotur ég væri og að ég væri búinn að týna vinum mínum í mannhafinu. Það kom ekki að sök því það fyrsta sem ég heyrði var á íslensku: „Þetta var geðveikt!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.