Enski boltinn

Adebayor ætlar að passa sig ef hann skorar hjá Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emmanuel Adebayor fagnar marki sínu fyrir framan stuðningsmenn Arsenal.
Emmanuel Adebayor fagnar marki sínu fyrir framan stuðningsmenn Arsenal. Mynd/AFP
Emmanuel Adebayor verður í sviðsljósinu á White Hart Lane á morgun þegar hann og félagar hans í Tottenham taka á móti Arsenal í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Emmanuel Adebayor skoraði í fyrsta leiknum sínum með Tottenham alveg eins og hann gerði hjá Arsenal, Manchester City og Real Madrid. Adebayor skoraði líka tvennu í sigrinum á Liverpool og Tottenham hefur unnið alla deildarleikina með hann innanborðs.

Það er þó ekki bara þessi góða byrjun sem kallar á athygli heldur umdeilt atvik í leik Manchester City og Arsenal í september 2009 þegar Adebayor skoraði hjá sínum gömlu félögum. Adebayor hljóp þá völlinn á enda til þess að fagna markinu fyrir framan stuðningsmenn Arsenal sem höfðu hraunað yfir hann allan leikinn.

„Þegar ég samdi við Tottenham þá sagði Alex Song við mig: Adebayor, þú ert að gera þetta viljandi út af því að þetta eru helstu erkifjendur Arsenal. Ég sagði, nei félagi, ég er fagmaður og Tottenham er eina félagið í boði fyrir mig. Það er frábær klúbbur og ég er kominn aftur til fjölskyldunnar. Það verður gaman að spila á móti þér," sagði Emmanuel Adebayor.

„Ég mun skora á móti Arsenal ef ég fæ tækifæri til þess. Ég mun hinsvegar ekki fagna markinu eins og ég gerði um árið," sagði Adebayor sem hefur beðið alla nokkrum sinnum afsökunar á framkomu sinni.

Harry Redknapp, stjóri Tottenham, var einn af fáum sem kom Adebayor til varnar á sínum tíma og honum er alveg sama hvernig hann fagnar á morgun.

„Hann hefur viljað spila fyrir Tottenham síðan að hann var þriggja ára gamall. Honum varð að ósk sinni og ég von að hann skori nokkur mörk í þessum leik og fagni þeim með því að renna sér á hnén. Mér er í raun sama hvernig hann fagnar ef ég segi alls eins og er," sagði Harry Redknapp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×