Lífið

Taka þátt í danskri götuhátíð

Ómar Arnarson, til vinstri, og félagar á Café Salonen í Kaupmannahöfn munu taka þátt í hverfahátíðinni Distortion í júní.
Ómar Arnarson, til vinstri, og félagar á Café Salonen í Kaupmannahöfn munu taka þátt í hverfahátíðinni Distortion í júní.
Íslendingabarinn Salonen mun taka þátt í Distortion-hátíðinni sem fram fer í Kaupmannahöfn nú í sumar. Hátíðin stendur yfir í fjóra daga og skiptast ólíkir bæjarhlutar á að halda götuskemmtun þar sem íbúar, verslunarrekendur og tónlistarmenn koma saman og gera sér glaðan dag.

Ómar Arnarson, annar eigenda Salonen, segir hátíðina afskaplega skemmtilega en hún hefur verið haldin árlega allt frá árinu 1998. „Við tókum fyrst þátt í fyrra og ætlum að endurtaka leikinn aftur í ár. Götunni verður lokað og við verðum með borð og stóla úti og fáum svo til okkar plötusnúða, þar á meðal nokkra íslenska,“ útskýrir Ómar. Hann segir fjölda fólks hafa sótt hátíðina í fyrra enda hafi veðrið verið einstaklega gott. „Það hafði verið rigning dagana á undan en svo stytti upp og það kom sól og blíða og það var rosalega gaman að sjá hversu margir mættu og tóku þátt í gleðinni með okkur.“

Hátíðin byrjar í miðbæ Kaupmannahafnar þar sem Salonen er til húsa og hefst skemmtunin um hádegi og lýkur klukkan ellefu um kvöldið svo nágrannarnir verði ekki fyrir of miklu ónæði. Aðspurður segir Ómar rekstur Salonen hafa gengið vel og að staðurinn eigi sér dyggan kúnnahóp. „Við fáum til okkar mjög blandaðan kúnnahóp, bæði hvað aldur varðar og þjóðerni. Svo eru námsmenn líka duglegir að sækja staðinn,“ segir Ómar að lokum.- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.