Lífið

Sængað hjá vinum og ofurpilla

Fjörugt Matt Damon og Bradley Cooper keppa um hylli íslenskra kvikmyndahúsagesta með kvikmyndirnar Limitless og The Adjustment Bureau.
Fjörugt Matt Damon og Bradley Cooper keppa um hylli íslenskra kvikmyndahúsagesta með kvikmyndirnar Limitless og The Adjustment Bureau.
Fjórar myndir verða frumsýndar í íslenskum kvikmyndahúsum um helgina. Sérstaklega verður að minnast á bresku gamanmyndina Four Lions sem fengið hefur afbragðsgóða dóma en hún er frumsýnd í Bíó Paradís. Myndin segir frá hópi lánlausra hryðjuverkamanna sem undirbúa árás í ensku borginni Sheffield. Leikstjórinn Chris Morris vann til Bafta-verðlauna fyrir þessa frumraun sína og myndin var ein af tíu bestu myndum ársins að mati Time Magazine.

Kvikmyndin Limitless með Bradley Cooper og Robert De Niro verður einnig tekin til sýningar um helgina. Hún segir frá hinum lata Eddie Morra sem varla nennir að draga andann. Hann kemst hins vegar í kynni við dularfullan mann sem gefur honum pillu en hún gerir honum kleift að sjá heiminn upp á nýtt. Myndin hefur fengið ágætis dóma og situr á toppnum í Bandaríkjunum.

Kvikmyndin The Adjustment Bureau skartar Matt Damon og Emily Blunt í aðalhlutverkum en hún segir frá manni sem vill breyta lífi sínu og örlögum. Myndin er byggð á smásögu eftir Philip Dick, þann sama og skrifaði Blade Runner.

Fjórða myndin er síðan No Strings Attached en hún er kannski til marks um ókosti ófrumleika. Myndin segir nefnilega frá vinum sem ákveða að sænga saman án þess að það hafi neinar afleiðingar. Sama söguþráð er hægt að finna í kvikmyndinni Friends with Benefits sem verður frumsýnd á þessu ári. No Strings skartar Ashton Kutcher og Óskarsverðlaunaleikkonunni Natalie Portman í aðalhlutverkum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.