Innlent

Ari Edwald: Gillz fer ekki í loftið á meðan málið er í athugun

Ari Edwald.
Ari Edwald.
„Hann fer ekki í loftið á meðan málið er í athugun," svarar Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, spurður hvort Egill Gillzenegger Einarsson, muni skemmta landanum á vegum 365 miðla eftir að hann og unnusta hans voru kærð fyrir nauðgun í síðustu viku.

Egill var nafngreindur opinberlega á Eyjunni.is fyrir helgi. Áður hafði DV greint frá því að par hefði verið kært fyrir nauðgun. Agli er gefið að sök að hafa ásamt unnustu sinni þvingað rétt rúmlega átján ára stúlku til kynferðismaka. Egill neitar ásökunum samkvæmt yfirlýsingu sem hann sendi frá sér á föstudaginn.

Á sama tíma og Egill var nafngreindur sat hann fyrir svörum í skemmtiþættinum Spurningabombunni á Stöð 2 og fyrr sama dag skemmti hann útvarpshlustendum í þættinum FM 957BLÖ. Þess má geta að báðir þættirnir voru teknir upp áður en meint nauðgun á að hafa átt sér stað.

Ari segir að strax eftir að það kom í ljós að Egill hefði verið kærður fyrir nauðgun hafi verið tekin sú ákvörðun að hann myndi ekki birtast í afþreyingahluta fyrirtækisins. Þegar er búið að taka upp framhald af þáttaröðinni Mannasiðir Gillz, en að sögn Ara stóð til að sýna þættina næsta haust. Hann segir enga ákvörðun hafa verið tekna um framtíð þeirra þátta. Spurður hvort þættirnir verði mögulega sýndir verði Gillz fundinn saklaus af málinu, svarar Ari því til að það sé of snemmt að segja til um það.

„Annars finnst mér þessir þættir léttvægt mál í samhengi við alvarleika málsins," segir Ari að lokum.


Tengdar fréttir

Par kært fyrir nauðgun - segir kærustuna hafa horft upp á ofbeldið

Par hefur verið kært fyrir nauðgun í heimahúsi á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku. Fórnarlambið er átján ára stúlka. Lögregla er með málið til rannsóknar en samkvæmt heimildum fréttastofu hefur parið einnig kært stúlkuna fyrir rangar sakargiftir. Maðurinn var yfirheyrður í dag.

Gillz kærður fyrir nauðgun

Egill Einarsson, kallaður Gillzenegger, hefur verið kærður fyrir nauðgun. Það er Eyjan.is sem greinir frá þessu.

Gillz segir nauðgunarásakanir fráleitar

Egill Einarsson, eða Gillzenegger, segir ásakanir um nauðgun fráleitar og eingöngu til þess fallnar að sverta mannorð sitt. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Egill sendi Vísi fyrir stundu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×