Innlent

Íhugar að kæra Pressuna til lögreglunnar vegna myndbirtingar

Pressan.is.
Pressan.is.
„Ég held að það séu engin fordæmi fyrir því að brotaþolendur í kynferðisafbrotamálum séu myndbirtir," segir Katrín Oddsdóttir lögmaður sem ætlar að kæra fréttamiðilinn Pressuna.is til blaðamannafélags Íslands og lögreglunnar fyrir að myndbirta stúlku sem hefur kært Egil Gillz Einarsson og unnustu fyrir nauðgun.

Myndin sem um ræðir var af átján ára stúlku sem var að kyssa unnustu Egils og var búið að svartan borða fyrir augun á meintum brotaþola svo hún þekktist ekki.

„Það er ótrúlegt að sjá fjölmiðla gera svona lagað," segir Katrín sem ætlar meðal annars að benda lögreglu á mögulegt brot forsvarsmanna Pressunnar gegn 229. grein almennra hegningarlaga. Þar segir orðrétt:

„Hver, sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi, er réttlæti verknaðinn, skal sæta sektum eða [fangelsi]1) allt að 1 ári."

Katrín hyggst svo kæra miðilinn fyrir 3. grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands sem hljóðar svo: „Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu."

Pressan hefur fjarlægt myndin af vefnum að beiðni verjanda hennar. Viðbrögðin við myndbirtingunni hefur vakið miklar deilur, meðal annars á samskiptavefnum Facebook sem og á hinum ýmsu bloggum.

Katrín segir umfjöllun fjölmiðla um málið gagnrýnisverða. Hún bendir á að það sé erfitt að vera þolandi í kynferðisafbrotamáli og því verulega íþyngjandi fyrir þá sem ganga í gegnum kæruferlið að þurfa að þola umfjöllun fjölmiðla með svo beinskeyttum hætti.

„Þetta er ósmekklegt og ómaklegt," segir Katrín sem segir eðlilegast að fjölmiðlar og almenningur gefi lögreglunni svigrúm tl þess að rannsaka málið.

Þess má geta svo að lokum að Pressan hefur beðist afsökunar á birtingu myndarinnar og fjarlægt fréttina af vefnum. Þetta gerðist eftir samtalið við Katrínu og má vera að það breyti málinu að einhverju leyti. Hún segist ætla að skoða þá stöðu sem nú er komin upp þegar Vísir bar það undir hana. Efnislega standi sjónarmið hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×