Innlent

Sökk mjög djúpt áður en almættið kom henni til bjargar

Erla Hlynsdóttir skrifar
Mannréttindaráð Reykjavíkur stóð fyrir opnum fundi í dag um mannréttindi útigangsfólks. Ásdís Sigurðardóttir sem bjó á götunni í fjögur ár hélt þar erindi.

Samkvæmt tölum frá Reykjavíkurborg eru nú allt að sextíu manns heimilislausir. „En það eru miklu fleiri en tölur gefa, og miklu miklu fleiri konur en tölur gefa því konur fá oft að sofa einhvers staðar," segir Ásdís og segir að konurnar greiði þá jafnframt fyrir það í einhverju sem hún vilji helst ekki tala um.

Ásdís hefur verið edrú í sjö ár og starfar í dag á meðferðarheimilinu Hlaðgerðarkoti. Hún segist hafa sokkið mjög djúpt áður en almættið kom henni til bjargar. „Ég semsagt labbaði oft um stræti borgarinnar heilu næturnar og hafði hvergi að sofa, og ég man einu sinni eftir því að ég fór inn á Hlemm þegar hann opnaði og sofnaði þar á klósettinu, sat á klósettinu og svaf þar til barirnir opnuðu," segir Ásdís.

Á liðinum vetri urðu minnst fjórir útigangsmenn úti á höfuðborgarsvæðinu. Ásdís segir brýnt að bæta úr. „Aðstaðan er ekki góð fyrir götufólk," segir hún.

Á fundi borgarstjórnar á þriðjudag var ákveðið að verja 40 milljónum króna aukalega til að bæta hag útigangsfólks í borginni í vetur. Ekki hefur verið útfært að fullu hvernig þessum fjörutíu milljónum verður ráðstafað, en það þær fara meðal annars í tilraunaverkefni lögreglu og velferðarsvivðs sem ber heitið Borgarverðir og miðar að því að auka þjónustu við útigangsfólk í borginni og tryggja að allir komist í öruggt skjól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×