Íslenski boltinn

Umfjöllun: Atli Viðar með tvö mörk í lokin - enn vinnur FH manni færri

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mynd/Daníel
FH bar sigur úr býtum gegn Þór, 2-0, á Kaplakrikavelli í dag í Pepsi-deild karla í knattspyrnu, en FH var einum færri síðustu 40 mínútur leiksins.

Leikurinn var nokkuð fjörugur til að byrja með og voru FH-ingar sprækari aðilinn. Heimamenn voru ákveðnir í sínum aðgerðum og það leit út fyrir það að FH myndi ná að setja boltann í netið á fyrsta korteri leiksins, en svo var ekki. Leikurinn róaðist mikið með hverri mínútu og liðin náðu hvorugt að skapa sér hættuleg færi. Staðan var 0-0 í hálfleik eftir virkilega bragðdaufan fyrri hálfleik.

FH-ingar byrjuðu síðari hálfleikinn vel og pressuðu stíft að marki Þórsara. Heimamenn urðu aftur á móti fyrir áfalli í byrjun síðari hálfleiksins þegar Björn Daníel Sverrisson, leikmaður FH, fékk sitt annað gula spjald í leiknum og var því vikið af velli. Þetta hafði ekki mikil áhrif á leik FH og þeir héldu áfram að stjórna leiknum.

Þórsarar hafa ekki náð finna sig einum fleiri í sumar og það var enginn undartekning á því í dag. Á 83. mínútu leiksins náðu heimamenn loksins að brjóta ísinn þegar Atli Viðar Björnsson skoraði fínt mark með þrumuskoti við vítateigsbogann.

Varnarmenn Þórs gerðu sig seka um skelfileg varnamistök og Atli Viðar nýtti sér það. Aðeins þremur mínútum síðar var Atli Viðar aftur á ferðinni þegar hann skallaði boltann í netið eftir fína fyrirgjöf frá Matthíasi Vilhjálmssyni og heimamenn kláruðu leikinn 2-0. Fimmti sigurinn í röð hjá FH-ingum  og þeir virðast óstöðvandi, sérstaklega einum færri.

Hér fyrir neðan má sjá textalýsingu frá blaðamanni Vísis á vellinum.

FH  2 – 0 Þór

1-0 Atli Viðar Björnsson  (83.)

2-0 Atli Viðar Björnsson (86.)

Skot (á mark): 12 – 4 (7-3)

Varin skot: Gunnleifur 2 – 6 Rajkovic

Horn: 11 – 2

Aukaspyrnur fengnar: 9–10

Rangstöður: 2-0



Dómari: Þorvaldur Árnason  6

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×