Íslenski boltinn

Þórsarar án þjálfarans og fjögurra lykilmanna á móti FH í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs og Halldór Áskelsson, sem stýrir liðinu í dag.
Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs og Halldór Áskelsson, sem stýrir liðinu í dag. Mynd/Pjetur
Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs, mun ekki stjórna liði sínu í dag þegar það sækir FH-inga heima í Kaplakrikann í 16. umferð Pepsi-deildar karla. Páll Viðar er staddur út í Hollandi og þeir Halldór Ómar Áskelsson og Hreinn Hringsson stýra liðinu í stað hans.

Páll Viðar er ekki eini Þórsarinn sem missir af þessum leik. Janez Vrenko tekur út leikbann, Atli Sigurjónsson er staddur í Hollandi við æfingar hjá úrvalsdeildarliðinu NEC, Alexandar Linta er staddur erlendis og Gunnar Már Guðmundsson má ekki spila leikinn vegna ákvæða í lánssamningi við FH. Jóhann Helgi Hannesson fór meiddur af velli og er tæpur fyrir leikinn.

Auk þessa eru Þórsarar að spila á útivelli þar sem þeir hafa tapað stórt í tveimur síðustu deildarleikjum sínum,. 1-5 á móti Stjörnunni og 1-4 á móti Blikum. Það reynir því vissulega á Þórsliðið í Krikanum í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×