Íslenski boltinn

Heimir: Byrjaði hugsanlega með vitlausa uppstillingu

Valur Smári Heimisson skrifar
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV.
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV. Mynd/Anton
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, var lengi að finna sitt rétta leikskipulag í 2-1 sigri ÍBV á Keflavík í 16. umferð Pepsi-deildar karla í dag. Heimir var mikið að færa menn til í fyrri hálfleik. Brynjar Gauti Guðjónsson byrjaði í miðverði með Rasmus Christiansen en var svo færður á miðjuna um miðjan fyrri hálfleik. Andri Ólafsson var á sama tíma færður í miðvörðinn úr framherjastöðunni.

„Ég viðurkenni það að hafa hugsanlega byrjað með vitlausa uppstillingu eða að þeir hafi í raun verið tilbúnari í leikinn heldur en við. Ég reyndi að færa menn til inn á vellinum til þess að mæta þeim betur. Það gekk vel seinni hlutann af seinni hálfleik. Annars eru Keflvíkingarnir bara með flott lið, góða blöndu af frískum strákum og reyndari leikmönnum og þeir voru mjög góðir í dag," sagði Heimir eftir leikinn.

Eyjamenn fylgja nú KR-ingum vel eftir og eru ennþá vel inní toppbaráttunni og það segir Heimir hafa jafnvel verið munurinn á liðinum í dag. „Það var kannski bara munurinn í dag að við höfum meira að keppa heldur en Keflvíkingarnir," segir Heimir.

Keflvíkingar voru heldur sterkari aðilinn stóran part leiksins en síðustu 20 mínúturnar náðu Eyjamenn tökum á leiknum og virtist sigur Eyjamanna ekki vera í mikilli hættu eftir að þeir komust yfir.

„Ég er mjög ánægður með skiptingarnar hjá mér í leiknum og ég er ánægður með strákana sem komu inná. Varamennirnir komu með virkilega mikinn kraft inn í liðið og það er einmitt það sem maður vill sjá þegar maður er að skipta inn þeim inn á völlinn," sagði Heimir.

Eyjamenn eru nú aðeins einu stigi á eftir KR-ingum en hafa leikið tveimur leikjum meira en Vesturbæingar. Næsti leikur ÍBV er einmitt á móti KR í Frostaskjólinu á fimmtudaginn.

„Fyrir þá sem eru að fjalla um leikina er þetta kannski einhver stórleikur en hann gefur jafn mörg stig og þessi leikur í dag. Það hefur ekkert lið unni KR svo það væri ekki miklu að tapa þó svo að við fengjum ekki stig út úr þeim leik. Auðvitað förum við í þann leik til að vinna. Eins og ég hef samt oft sagt áður þá getum við ekki verið að hafa áhyggjur af KR-ingum því við höfum engin völd yfir því hvað gerist hjá þeim," segir Heimir.

„KR-ingarnir hafa staðið sig vel og getum ekki verið að missa einbeitingu yfir einhverju sem þeir eru að gera. Á venjulegu ári þá væri þessi stigafjöldi sem við erum með nóg til að vera í efsta sæti og við ætlum ekkert að vera að svekkja okkur á því hvað KR-ingarnir eru góðir.“ sagði Heimir Hallgrímsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×