Lífið

Brakandi ferskt sýnishorn fyrir Týndu kynslóðina

Mikil eftirvænting ríkir fyrir sjónvarpsþættinum Týnda kynslóðin sem verður á dagskrá Stöðvar 2 í opinni dagskrá á föstudagskvöldum í vetur. Þátturinn er í umsjón Björns Braga Arnarssonar og Þórunnar Antoníu og fer fyrsti þátturinn í loftið 19. ágúst næstkomandi.

Týnda kynslóðin frumsýnir hér á Vísi brakandi ferskt sýnishorn úr þættinum þar sem þekktum einstaklingum á borð við Pál Óskar, Pétur Jóhann, Ingó og Rikku bregður fyrir í hinum undarlegustu aðstæðum.

„Hugmyndin var að gera stiklu fyrir versta sjónvarpsþátt í heimi. Við skemmtum okkur mjög vel við að taka þetta upp og gestaleikararnir ekki síður," segir Björn Bragi og lofar því að raunverulegi þátturinn verði betri en stiklan gefur til kynna.

Týnda kynslóðin verður spjallþáttur þar sem gestirnir taka virkan þátt í dagskrárgerðinni auk þess sem sýnd verða innslög af ýmsu tagi. „Undirbúningurinn hefur gengið vel. Við Þórunn náum mjög vel saman og erum svakalega spennt fyrir vetrinum," segir Björn Bragi.

Greint var frá því nýverið að Nilli, sem stýrt hefur samnefndum vefþáttum á mbl.is, hefði gengið til liðs við þáttinn. „Nilli verður eins konar hjálparkokkur og verður með regluleg innslög frá hinum ýmsu viðburðum. Hann er góður liðstyrkur." segir Björn Bragi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.