Lífið

Scott takmarkar aðgengi að Dettifossi

Leikstjórinn Ridley Scott.
Leikstjórinn Ridley Scott. Mynd/Getty
Aðgengi ferðamanna að Dettifossi verður lokað að austanverðu á fimmtudag og föstudag á meðan tökur á stórmyndinni Prómeþeusi fara þar fram. Opið verður fyrir aðgang vestan megin við fossinn.

Eins og Fréttablaðið greindi frá á dögunum stóð til að loka aðgenginu bæði austan- og vestanmegin en hætt var við það. „Það var í raun farinn millivegurinn til að loka ekki alfarið fyrir umferð ferðamanna. Það var eftir mjög góða samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar og Vatnajökulsþjóðgarð sem það var ákveðið," segir Þór Kjartansson, starfsmaður framleiðslufyrirtækisins True North, sem aðstoðar tökulið Prómeþeusar. Hann bætir við að björgunarsveitarmenn verði á vakt vestan megin við fossinn til að leiðbeina fólki á réttan stað svo það fái litið hinn glæsilega foss án þess að trufla tökurnar.

Aðspurður segir Þór að tökulið Prómeþeusar, með leikstjórann Ridley Scott í fararbroddi, sé gríðarlega ánægt með dvölina á Íslandi og allt hafi gengið eins og í sögu. „Ísland hefur skartað sínu fegursta og á eflaust eftir að vekja mikla lukku þegar það kemst á hvíta tjaldið," segir hann.

Tökur á Prómeþeusi hófust 11. júlí við rætur Heklu og er áætlað að þær standi yfir í tvær vikur. Með helstu hlutverk fara Óskarsverðlaunaleikkonan Charlize Theron, X-Men-hetjan Michael Fassbender og Lisbeth Salander-leikkonan Noomi Rapace.

- fb


Tengdar fréttir

Geimverur loka náttúruperlu

Aðgangur almennings að Dettifossi verður takmarkaður í tvo daga á meðan tökur á geimverumyndinni Prometheus, í leikstjórn Ridley Scott, fara fram síðar í mánuðinum. Tökur á myndinni hófust á mánudag við rætur Heklu.

Ridley Scott og félagar sprengja í Rangárþingi ytra

Breski leikstjórinn Ridley Scott hefur fengið leyfi til sprenginga frá 5. júlí til 1. ágúst við Dómadalsleið samkvæmt fundargerð hreppsnefndar Rangárþings ytra. Í fundargerðinni kemur jafnframt fram að aðeins verði sprengt þrjá daga innan þess tímaramma. Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst eru sprengingarnar ekki stórar heldur eru einungis hugsaðar sjónrænt fyrir tökuvélarnar.

Stórstjörnur við Heklu

„Ef maður er smeykur við náttúruöflin í þessu fagi þá ætti maður að finna sér annað starf," segir kvikmyndaleikstjórinn Ridley Scott sem átti stuttan fund með blaðamönnum í miðbæ Reykjavíkur í gær. Tökur á stórmyndinni Prometheus hefjast í dag við rætur Heklu. Eins og kom fram í fjölmiðlum í síðustu viku þá virtist Hekla vera að rumska en Scott segist ekki hafa misst svefn yfir þeim fréttaflutningi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×