Enski boltinn

Ferguson: Einn titill nóg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
United varð síðasta enskur meistari vorið 2009.
United varð síðasta enskur meistari vorið 2009. Nordic Photos / Getty Images
Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir að tímabilið myndi vera vel heppnað þó svo að liðinu myndi takast að vinna aðeins einn titil á árinu.

United á möguleika á að vinna þrennuna eins og liðið gerði árið 1999 en liðið er í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, komið í undanúrslit ensku bikarkeppninnar og fjórðungsúrslit Meistaradeildar Evrópu.

„Við eigum möguleika á þrennunni en það hefur samt aldrei verið erfiðara að ná henni. Við munum gera okkar besta," sagði Ferguson.

„En mér hefur alltaf fundist að ef maður nær að setja græðgina til hliðar eigi maður að vera ánægður með vinna einn stóran titil á hverju ári."

„Ef okkur myndi takast það í ár væri ég hæstánægður með það," bætti hann við.

United er með fimm stiga forystu á Arsenl og Ferguson segir líklegast að baráttan um enska meistaratitilinn muni standa á milli þessara tveggja liða.

„En það er aldrei að vita. Manchester City, Chelsea og Tottenham eiga enn möguleika og er ekki hægt að afskrifa þessi lið. Það eru nokkrir mikilvægir leikir fram undan og mér finnst reyndar að við verðum að vinna alla þá leiki sem við eigum eftir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×