Enski boltinn

Pires ætlar ekki að hætta strax

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Hinn 37 ára gamli Robert Pires hefur ekki hug á því að hætta knattspyrnuiðkun eftir að tímabilinu lýkur í Englandi í vor.

Pires gekk til liðs við Aston Villa á miðju tímabili eftir að Gerard Houllier var ráðinn knattspyrnustjóri og hefur hann greint frá því að honum standi til boða að fara næst til Katar, Bandaríkjanna eða Ástralíu.

„Það er stutt í að ferli mínum lýkur og vil ég njóta mín eins lengi og mögulegt er,“ sagði hann í viðtali á heimasíðu FIFA.

„Margir fyrrverandi leikmenn sem hættu 32 eða 33 ára gamlir hafa sagt mér að þeir sjái eftir þeirri ákvörðun. Ég hef því ákveðið að halda áfram eins lengi og ég get.“

„Ég er undir það búinn að hætta nú strax í maí en ef annað félag kemur til sögunnar er ég tilbúinn til að takast á við nýja áskorun, hvort sem er í Katar eða Bandaríkjunum. Ég hef líka fengið tilboð frá Ástralíu.“

„Ég er enn að spila í ensku úrvalsdeildinni og er greinilega ekki alveg gleymdur. En þetta mun ég skoða betur þegar það verður tímabært.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×