Innlent

Trébátar sukku í höfninni

Báturinn Gæskur lá enn óhreyfður síðdegis í gær en erfitt kann að reynast að hífa hann upp.
Báturinn Gæskur lá enn óhreyfður síðdegis í gær en erfitt kann að reynast að hífa hann upp. fréttablaðið/valli
Tveir bátar sukku í Reykjavíkurhöfn um helgina. Annar báturinn, Gæskur, var í smábátahöfninni sem er við tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu, en hinn var við Grandagarð og nefnist Ver.

Hafist var handa við að hífa upp Ver, sem er um 20 tonn, síðdegis í gær en Gæskur, sem er um 65 tonn, stóð enn þá óhreyfður síðdegis.

„Þetta kemur nú, því miður, fyrir öðru hverju,“ segir Gísli Gíslason hafnarstjóri. „Það er ekki vitað hvað kom fyrir Ver en eigandinn er að ná honum upp, sem ætti ekki að vera neitt stórmál. Hinn báturinn, Gæskur, flokkast undir reiðileysisbát. Við höfum haft hann undir eftirliti síðustu mánuði og höfum verið að dæla upp úr honum en síðan hefur dæla bilað og hann húrraði bara niður.“

Búið var að fjarlægja olíu og aðra mengunarvalda svo mengunarhætta af þessum bátum er engin.- mþl



Fleiri fréttir

Sjá meira


×