Innlent

Bauð viðskiptafélaga í lax og vildi fá endurgreitt

Laxveiði getur verið róandi.
Laxveiði getur verið róandi.

Per Ulrik Schmidt vann dómsmál gegn fyrrverandi viðskiptafélaga sínum sem stefndi honum vegna veiðiferðar í Laxá í Kjós. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði hann af kröfu fyrrum viðskiptafélaga síns, Páls G Jónssonar, sem krafðist 3000 dollara, eða tæplega 400 þúsund króna, fyrir veiðiferðina sem þeir fóru saman í árið 2007.

Per Ulrik taldi að um boðsferð væri að ræða samkvæmt dómsorði. Félaginn hans, sem þá rak fyrirtækið Leit.is, bauð honum í ferðina. Þegar Per Ulrik spurði út í kostnað vegna ferðarinnar á viðskiptafélaginn að hafa sagt honum að hafa engar áhyggjur af því.

Þeir veiddu svo í Laxá í þrjá daga en dagurinn kostar um 90 þúsund krónur.

Það var síðan í október 2008, mánuði eftir bankahrun, sem lögmaður viðskiptafélagans sendi Per Ulrik áskorun um að borga fyrir veiðiferðina eftir að upp úr viðskiptasambandi þeirra slitnaði. Per Ulrik hunsaði áskorunina sem varð til þess að viðskiptafélaginn höfðaði mál á hendur honum og krafðist endurgreiðslu.

Í ljósi þess að það tók Pál 15 mánuði að krefjast endurgreiðslu, auk þess sem Per Ulrik neitaði allan tímann að um annað en boðsferð hafi verið að ræða, taldi dómari einsýnt að Páll hefði boðið Per Ulrik í laxveiði.

Þá var viðskiptafélaginn dæmdur til þess að endurgreiða Per Ulrik 330 þúsund krónur í málskostnað, eða litlu minna en hann sjálfur krafðist fyrir boðsferðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×