Innlent

Barist um bæjarstjórastólinn í Árborg

SB skrifar
Sigurður Þ. Ragnarsson, Inga Jóna Þórðardóttir og Gunnar Birgisson vilja öll verða bæjarstjórar.
Sigurður Þ. Ragnarsson, Inga Jóna Þórðardóttir og Gunnar Birgisson vilja öll verða bæjarstjórar.
Gunnar Birgisson segist reiðubúinn að söðla um og flytja til Árborgar, reynsla hans muni nýtast vel í þetta starf. Vísir ræddi við nokkra umsækjendur um bæjarstjóraembættið í Árborg, þeir eru sammála um að miklir möguleikar séu á svæðinu og framtíðin sé björt.

„Ég á nú sumarhús fyrir austan fjall og þekki vel til svæðisins," segir Gunnar Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogsbæjar og umsækjandi um starf bæjarstjóra í Árborg. „Ég hef starfað við þetta í 20 ár og held að reynsla mín nýtist vel í þetta starf. Það er nóg af verkefnum að taka."

Gunnar segist tilbúinn að flytja austur. Hans nánustu lítist vel á það. „Maður sækir nú ekki um svona starf í andstöðu við fjölskylduna," segir hann.

Inga Jón Þórðardóttir, eiginkona Geirs H. Haarde, sækir einnig um starfið. „Ég er reiðubúin að takast á við þetta starf og held að reynsla mín og þekking sé góður bakgrunnur. Við erum reiðubúin að flytja út á land, þetta er fallegt svæði og Árborg býr yfir mjög spennandi tækifærum til þróunar í framtíðinni."

Einn óvæntasti umsækjandinn er kannski Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfréttamaður, eða Siggi stormur eins og hann hefur verið kallaður. „Ég er ættaður frá Eyrarbakka, þekki innviði þessa sveitarfélags og kann vel við mig þarna. Mér fannst ég eiga erindi í þetta starf og vildi fá að vera með í partýinu."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×