Innlent

Synda til Hríseyjar

Frá Hrísey
Frá Hrísey Mynd/Anna Tryggvadóttir
Mikil fjölskyldu- og skemmtihátíð, svo kölluð Fullveldis- og skeljahátið, verður í Hrísey um helgina og er búist við góðri mætingu, en í tengslum við hátíðina var efnt til sérstaks Hríseyjarsunds.

Í Hríseyjarsundinu er keppt í tveimur flokkum - skemmtiflokki þar sem hjálpartæki eru leyfileg og svo í flokki sundkappa. Fjórir tilkynntu þátttöku og það var Birna Hrönn Sigurjónsdóttir sem fyrst allra lauk sundinu á einum klukkutíma og sautján mínútum en sundið stenn yfir. Sundið er tæplega þrír og hálfur kílómetri í köldum sjónum í Eyjafirði og fylgja bátar sundmönnum til að tryggja öryggi þeirra.

Þetta er í annað sinn sem sundið er haldið. Á síðasta ári syntu sex einstaklingar og náðu þeir fljótustu að synda vegalengdina á rúmum klukkutíma en á meðal keppenda var Benedikt Hjartarson, bakari og sundkappi, sem vann sér til frægðar að synda yfir Ermarsund fyrir tæpum tveimur árum síðan.

Fjögur hundruð manns eru í eynni til að sækja hátíðina, en hundrað og áttatíu manns búa í Hrísey. Í tengslum við Fullveldis- og skeljahátíðina verður skeljakappát en tíu eru skráðir til þáttöku í því. Þá verður brekkusöngur og varðeldur í kvöld en hátíðinni lýkur á morgun. Að sögn Kristins Árnasonar, sem rekur einangrunarstöðina í Hrísey, eru flestir sem eru mættir með einhver tengsl við Hrísey og heimamenn.

„Stemmingin er mjög góð, það er koma sól úr skýjunum. Þetta er allt á réttri leið og fullt af fólki komið. "

Báturinn Sævar flytur fólk frá Árskóggssandi til Hríseyjar á tveggja tíma fresti, ef menn vilja skella sér. Veitingastaðurinn Brekka er vinsæll hjá bæði heimamönnum og gestum í Hrísey, en að sögn Kristins er galloway steikin vinsælust meðal heimamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×