Innlent

Keypti þrjú lögfræðiálit vegna Magma

Magma hefur keypt HS Orku, sem m.a. er eigandi orkuversins á Svartsengi. Nefnd um erlenda fjárfestingu telur viðskiptin standast kröfur laga.
Magma hefur keypt HS Orku, sem m.a. er eigandi orkuversins á Svartsengi. Nefnd um erlenda fjárfestingu telur viðskiptin standast kröfur laga.
Kostnaður við þóknun nefndarmanna í nefnd um erlenda fjárfestingu og sérfræði­álit þriggja lögfræðinga sem nefndin leitaði til vegna umfjöllunar um mál Magma Energy nemur samtals tæpum 1.200 þúsund krónum, samkvæmt upplýsingum frá viðskiptaráðuneyti.

Mánuði eftir að nefndin var kjörin af Alþingi í ágúst í fyrra fékk hún mál Magma til meðferðar. Haldnir hafa verið sex fundir. Hver nefndarmaður hefur fengið 13.500 krónur greiddar fyrir hvern fund en formaðurinn tvöfalda þá fjárhæð. Þóknun nefndarmanna er því samtals 486.000 krónur.

Við umfjöllun um mál Magma leitaði nefndin álits lögfræðinganna Dóru Guðmundsdóttur, hjá lagastofnun Háskóla Íslands, Kristínar Haraldsdóttur, forstöðumanns Auðlindaréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík, og Dóru Sifjar Tynes héraðsdómslögmanns.

Lögfræðingarnir fengu samtals greiddar 703.980 krónur, samkvæmt upplýsingum frá viðskiptaráðuneyti.

Samtals er þóknun nefndarmanna og lögfræðinga 1.189.980 krónur.

Nefnd um erlenda fjárfestingu hefur það hlutverk í umboði Alþingis að fylgjast með að ákvæðum laga um takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri sé framfylgt. Nefndin er ráðherra til ráðuneytis og er ráðherra skylt að afla umsagnar nefndarinnar áður en leyfi eru veitt til einstakra umsækjenda. Enginn þeirra aðila sem Alþingi kaus í nefndina hefur þó lögfræðimenntun eða aðra sérfræðiþekkingu á starfssviði nefndarinnar.

Nefndarmennirnir eru Unnur Kristjánsdóttir handmenntakennari, sem er formaður fyrir hönd Samfylkingar, Adolf H. Berndsen umboðsmaður, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Silja Bára Ómarsdótttir, háskólakennari í stjórnmálafræði, fyrir VG, Björk Sigurgeirsdóttir viðskiptafræðingur, fyrir Borgarahreyfinguna, og Sigurður Hannesson stærðfræðingur, fyrir Framsóknarflokkinn.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×