Innlent

Ófriðarseggur með glóðarauga handtekinn

Karl á fertugsaldri var handtekinn í miðborginni í nótt eftir að hafa látið þar ófriðlega en maðurinn reyndi að stofna til slagsmála samkvæmt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Hann var bæði með glóðarauga og bólgna vör þegar lögregla kom á vettvang og var því ekið á slysadeild til frekari skoðunar. Ekki gat hann verið þar til friðs og því var maðurinn færður í fangageymslu og látinn sofa úr sér vímuna en hann var verulega ölvaður.

Þá var tölvum og úrum stolið úr húsi í vesturbæ Reykjavíkur í gærmorgun. Í hádeginu var farið inn um glugga á gistiheimili í miðborginni og rótað í töskum ferðamanna en ekki er ljóst hvort einhverju var stolið. Um svipað leyti var veski með greiðslukortum í stolið úr bíl í Garðabæ. Um miðjan dag handtók lögregla tvo karla á þrítugsaldri sem höfðu stolið síma í verslun í Árbæ.

Síðdegis var tæplega tvítugur piltur tekinn fyrir þjófnað í verslun í Kópavogi og í gærkvöld var seðlaveski stolið af manni sem var að horfa á knattspyrnuleik á vínveitingastað í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×