Innlent

Sex doktorsvarnir við Háskóla Íslands á einni viku

Þessa viku verða einstök tímamót í sögu Háskóla Íslands, þegar samtals sex doktorsvarnir fara fram á sjö daga tímabili. Er það einsdæmi í starfsemi Háskólans en þess má geta að Háskóli Íslands er eini háskólinn hér á landi sem heimilt er að brautskrá doktora af öllum fræðasviðum sínum.

Þessi sögulega vika hófst á doktorsvörn í Sagnfræði- og heimspekideild föstudaginn 11. júní,  þegar Unnur Birna Karlsdóttir varði ritgerð sína Náttúrusýn og nýting fallvatna. Um viðhorf til náttúru og vatnsaflavirkjana á Íslandi 1900 – 2008.

Ritgerðin er byggð á ítarlegri rannsókn á umræðu um náttúru og vatnsorku á Íslandi og setur íslenska náttúrusýn jafnframt í samhengi við þær stefnur og strauma í vestrænni náttúrusýn sem skipta máli til að skilja þessa sögu.

Mánudaginn 14. júní fóru fram tvær doktorsvarnir og var sú fyrri við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, er Yuliya Tarabalka verkfræðingur varði doktorsritgerð sína Classification of Hyperspectral Data Using Spectral/Spatial Approaches (Flokkun fjölrásagagna með aðferðum sem byggjast á róf- og rúmupplýsingum). Var doktorsnám Yuliyu sameiginlegt á milli Háskóla Íslands og INP Grenoble (INPG) háskólans í Grenoble, Frakklandi.

Síðar þennan sama dag fór síðan fram doktorsvörn í stærðfræði frá Raunvísindadeild er Olivier Moschetta varði doktorsritgerð sína The non-linear Schrödinger equation: non-degeneracy and infinite-bump solutions (Ólinulega Schrödinger-jafnan: óúrkynjaðar lausnir með óendanlega marga tinda).

Miðvikudaginn 16. júní mun fara fram doktorsvörn við Jarðvísindadeild, en þá ver Esther Ruth Guðmundsdóttir jarðfræðingur doktorsritgerð sína Tephra stratigraphy and land-sea correlations: A tephrochronological framework based on marine sediment cores off North Iceland (Gjóskulagaskipan á hafsbotninum við Norðurland og tenging við gjóskulög á landi).

16. júní fer sömuleiðis fram doktorsvörn við Raunvísindadeild HÍ þegar Sigurður Örn Stefánsson eðlisfræðingur ver doktorsritgerð sína Tvö líkön af slembitrjám ( Topics in random tree theory).

Sjötta doktorsvörnin fer loks fram frá Líf- og umhverfisvísindadeild er Edda Sigurdís Oddsdóttir líffræðingur ver doktorsritgerð sína Distribution and identification of ectomycorrhizal and insect pathogenic fungi in Icelandic soil and their mediation of root-herbivore interactions in afforestation (Útbreiðsla og tegundagreining svepprótar- og skordýrasníkjusveppa í jarðvegi og áhrif þeirra á skordýrabeit á trjáplönturótum).

Allar doktorsvarnir við Háskóla Íslands eru opnar almenningi og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×