Innlent

Afrakstur þrotlausrar vinnu starfsmanna spítalans

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans.
Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans. Mynd/Pjetur
„Við vitum að árangurinn er afrakstur þrotlausrar og óeigingjarnrar vinnu allra starfsmanna spítalans," segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, um nýlega skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga.

Eins og mörg undanfarin ár varð verulegur halli á rekstri spítalans á árinu 2009 eða 1,3 milljarðir. Uppsafnaður halli spítalans í árslok nam rúmlega 2,8 milljörðum eða um 8% af fjárveitingum. Rekstraráætlun spítalans fyrir árið 2010 gerir ráð fyrir að reksturinn verði í takt við fjárveitingar samkvæmt fjárlögum og að uppsafnaður halli haldist því óbreyttur í árslok. Samkvæmt tölum um rekstur fyrstu fjögurra mánaða ársins 2010 virðist áætlunin ætla að ganga eftir. Verði það raunin yrðu það að mati Ríkisendurskoðunar einhver jákvæðustu tíðindi sem orðið hafa í rekstri A-hluta stofnana um langt árabil, að því er fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Björn fjallar um skýrsluna á heimasíðu Landspítalans. Hann segir að árangurinn sé afrakstur óeigingjarnrar vinnu starfsmanna spítalans. „En við þurfum að halda áfram og ljúka þeim fjölmörgu umbótaverkefnum sem við höfum byrjað á og tryggja þannig bæði rekstur spítalans og öryggi sjúklinga til lengri tíma. Slíkur langtímaárangur getur án efa orðið grundvöllur fyrir nýjar og enn áhrifameiri umbætur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×