Innlent

Börnum boðið í Viðey

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Börn að leik í Viðey.
Börn að leik í Viðey.
Börn og foreldrar þeirra eru boðin sérstaklega velkomin á sérstakan barnadag sem haldinn verður hátíðlegur í Viðey á morgun. Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir, verkefnastjóri fyrir Viðey, segir að þetta sé þriðja árið sem barnadagurinn er haldinn. „Það sem vakir fyrst og fremst fyrir okkur er að foreldrar ungra barna fatti Viðey. Hvað hún er skemmtileg fyrir litla krakka," segir Guðlaug Elísabet í samtali við Vísi.

Börnin eru hvött til að taka með sér sigti eða háf í Viðeyjarferðina, svo hægt sé að skoða allar furðuskepnurnar sem finnast í flæðarmálinu. Þá verður líka fjölbreytt dagskrá í boði. Ölum börnum verður boðið á hestbak og alls kyns afþreyingu er að finna á leiksvæðinu. Í Viðeyjarkirkju er Barnamessa klukkan tvö i umsjá Þorvaldar Víðissonar, æskulýðsfulltrúa Dómkirkjunnar, auk þess sem Gunni og Felix munu skemmta börnunum með tónlist og spjalli.

Fyrsta ferð frá Skarfabakka er klukkan korter yfir ellefu og svo er farið á klukkustundar fresti, korter yfir heila tímann til klukkan korter yfir fimm. Þá er siglt til baka á klukkustundar fresti á hálfa tímanum

Guðlaug Elísabet segist vona til þess að sem flestir foreldrar mæti með börn sín og að það muni viðra vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×