Innlent

Koma til móts við atvinnulaus ungmenni

Agnar Jón með hópi ungmenna Hins hússins fréttablaðið/vilhelm
Agnar Jón með hópi ungmenna Hins hússins fréttablaðið/vilhelm

Hitt húsið stendur fyrir þríliða sumardagskrá fyrir ungt fólk í júní og júlí með það að markmiði að virkja ungt fólk félagslega og þjálfa það í að setja sér markmið.

„Þetta er spurning um að bregðast við ástandinu eins og það er í samfélaginu í dag,“ segir Agnar Jón Egilsson, leikstjóri og hópstjóri í Hinu húsinu. „Það eru allt að 1.500 manns á aldrinum 17 til 24 ára atvinnulausir í Reykjavík og það verður að koma til móts við þá.“

Í fyrsta lagi er boðið upp á hópastarf ungmenna fyrir ungmenni og segir Agnar ekkert þar vera ómögulegt: „Þau skipta sér í hópa eftir áhugasviðum. Ef þig langar í strandblak þá finnur þú einhvern með þér í það. Ef þig langar að prjóna undir tré þá er það líka eitthvað sem er hægt að gera,“ segir hann.

Síðan eru námskeið sem haldin eru á vegum fagfólks. Þar má nefna heimildarmyndagerð, fatabreytingar og dulvísindanámskeið og eru þau öll ókeypis. Í þriðja lagi eru í boði námskeið sem Hitt húsið er með í sambandi við Vinnumálastofnun og þjálfar fólkið í að setja sér markmið og framfylgja þeim, sækja um vinnu og vera félagslega virk í samfélaginu.

„Það sem er magnað við þetta er að það geta allir gert allt,“ segir Agnar. „Það þarf bara að koma sér af stað.“ - sv



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×