Innlent

Exeter-málið: Allir neituðu sök

Fyrsta dómsmálið sem sérstakur saksóknari höfðar var þingfest nú klukkan tíu. Þá var þingfest ákæra á hendur þremenningunum sem grunaðir eru um umboðssvik í svokölluðu Exeter máli.

Það eru þeir Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður í Byr, Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi forstjóri Byrs, og Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP banka, sem eru ákærðir.

Allir þrír mættu fyrir dómara í morgun. Sakborningarnir voru spurðir út í afstöðu sína til ákærunnar. Þeir héldu allir fram sakleysi sínu, „ég er saklaus," sögðu þeir einn á fætur öðrum.



Styrmir Þór Bragason og Jón Þorsteinn Jónsson t.h.

Verjendur þremenninganna sögðust myndu leggja fram greinagerð í málinu sem verður tilbúin í september. Málinu var því frestað til 30. september. Þá mun aðalmeðferð fara fram.

Á leiðinni út úr réttarsalnum var Styrmir Þór spurður út í hug sinn til ákærunnar.

„Ég tel þetta tilhæfulausar ásakanir. Málið verður rekið fyrir dómstólum," svaraði hann.

Málið snýst um 1,1 milljarðs króna lán sem Byr veitti Exeter Holding á seinni hluta ársins 2008. Lánið var notað til þess að kaupa stofnfjárbréf af MP banka og stjórnarmönnum Byrs, Jóni Þorsteini Jónssyni og Birgi Ómari Haraldssyni, á yfirverði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×