Enski boltinn

Aston Villa áfram í úrslitaleikinn eftir ótrúlegan tíu marka leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Milner og Stephen Warnock fagna einu marki Aston Villa í kvöld.
James Milner og Stephen Warnock fagna einu marki Aston Villa í kvöld. Mynd/AFP
Aston Villa tryggði sér sæti í úrslitaleik enska deildarbikarsins eftir 6-4 sigur á Blackburn á heimavelli í seinni leik liðanna, Aston Villa vann fyrri leikinn 1-0 og þar með 7-4 samanlagt.

Blackburn byrjaði leikinn frábærlega og komst í 2-0 en það reyndist vera skammgóður vermir því liðið missti mann útaf og síðan öll tök á leiknum.

Nikola Kalinic kom Blackburn í 1-0 á 10. mínútu þegar hann skallaði í hnakkann á Stephen Warnock, fyrrum leikmanni Blackburn, og inn eftir hornspyrnu frá David Dunn.

Nikola Kalinic bætti við öðru marki á 26. mínútu þegar hann fylgdi á eftir skalla Martin Olsson sem Brad Guza hálfvarði til hans í markteignum.

Stephen Warnock minnkaði muninn í 2-1 á 30. mínútu með þrumuskoti úr teignum eftir fyrirgjöf frá Ashley Young.

Tíu mínútum seinna var komin upp allt önnur staða eftir að James Milner jafnaði leikinn fyrir Aston Villa úr víti og Chris Samba fékk að líta rauða spjaldið fyrir brotið.

Aston Villa var þá komið 3-2 innbyrðis og var manni fleiri síðustu 50 mínútur leiksins.

Aston Villa komst síðan í 5-2 á fyrstu tólf mínútum seinni hálfleiks, fyrst eftir sjálfsmark Ryan Nelsen, svo með öðru marki James Milner í leiknum og loks með marki Emile Heskey eftir sendingu frá Milner.

Martin Olsson minnkaði muninn í 5-3 aðeins mínútu síðar og Brett Emerton gerði enn betur sex mínútum fyrir leikslok þegar hann kom muninum niður í eitt mark, 5-4.

Ashley Young gulltryggði hinsvegar sigur Aston Villa með marki í uppbótartíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×