Innlent

Æfir yfir ákvörðun sjávarútvegsráðherra

Útgerðarmenn eru æfir vegna þeirrar ákvörðunar sjávarútvegsráðherra að gefa veiðar á úthafsrækju frjálsar. Þeir telja að með þessu sé ráðherra að óbeint innkalla kvótaheimildir. Útgerðarmenn hafa óskað eftir fundi með ráðherra vegna málsins.

Úthafsrækjukvóti er 7 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári en kvótinn skiptist á 80 skip.

Lítið hefur veiðst af rækju á undanförnum árum og má segja að stofninn sé nánast hruninn. Fyrir sjö árum veiddust tæplega 24 þúsund tonn af rækju en aðeins 860 tonn árið 2007. Á síðasta fiskveiðiári nam heildaraflinn aðeins þriðjungi af útgefnum kvóta.

Með hliðsjón af þessu ákvað Jón Bjarnason, sjávarútvegráðherra, að gefa veiðar á úthafsrækju frjálsar á næsta fiskveiðiári. Ráðherra kynnti ákvörðun sína í gær en til stendur að endurmeta á stöðuna í lok næsta fiskveiðiárs.

Ráðherra vísaði meðal annars í skýrslu starsfhóps á vegum á ráðuneytisins, þar sem fram kemur að sóknarstýring á úthafsrækjuveiðum vinni gegn því að aflaheimildir dagi uppi.

Útvegsmenn eru afar óánægðir með ákvörðun ráðherra og telja að með þessu sé óbeint verið að innkalla veiðiheimildir. Þeir ætla að funda með ráðherra á mánudag vegna málsins en einn útgerðarmaður sem fréttastofa talaði við sagði að ráðherra væri með þessari ákvörðun að vega að rótum fyrirtækisins.

Þessi ákvörðun kallar á lagabreytingu en ráðherra hyggst leggja fram frumvarp þess efnis á komandi haustþingi.

Jón Bjarnason segir að undanfarin ár hafi ekki veiðst upp í úthlutaðar veiðiheimildir á rækju og það sé ástæðan fyrir því að hann ákveðið að gefa veiðarnar að þessu sinni frjálsar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×