Innlent

Lokatilraun gerð á morgun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Slökkviliðsmaður brýtur sér leið út úr logandi húsi.
Slökkviliðsmaður brýtur sér leið út úr logandi húsi.
Slökkviliðsmenn gera lokatilraun á morgun til þess að afstýra verkfalli sem annars brestur á næsta föstudag. Sverrir Björn Björnsson, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, segist ekki geta sagt til um það hvort hægt verði að afstýra verkfalli. Það fari eftir því hvort viðsemjendur komi með eitthvað útspil á samningafundi klukkan tvö á morgun.

„Það verður annars verkfall á föstudag frá átta til fjögur sem lýtur að ýmsum verkþáttum," segir Sverrir Björn. Verkfallið komi jafnframt í veg fyrir að hægt verði að kalla út aukamannskap „Við munum skila inn þessum boðtækjum sem við erum með og göngum með alla daga ársins þó við séum á frívakt," segir Sverrir.

Myndskeið var sett á YouTube í dag þar sem slökkviliðsmenn sjást hætta lífi sínu í bruna á Klapparstíg í fyrra. „Menn eru alltaf annað slagið að lenda í svona aðstæðum," segir Sverrir Björn. „Þeir fóru upp og þá varð allt alelda. Sem betur fer fundu þeir þessa hurð og gátu brotið sér leið þarna út," segir Sverrir Björn. Hann segir að Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna standi ekki að birtingu myndskeiðisins. Hann hafi fyrst séð það birt opinberlega á facebook í kvöld. Hann segist þó hafa séð myndskeiðið áður. Það hafi verið tekið af íbúa í nágrenni við staðinn sem kviknaði í. „Það var bara maður í húsi á móti sem tók myndavél og myndaði þetta," segir Sverrir.

Sverrir segir að viðsemjendur slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hafi sýnt jákvæð viðbrögð á samningafundi síðastliðinn fimmtudag. Það hafi verið í fyrsta sinn í heilt ár sem það hafi gerst og sé góðs viti. Hann segir að helsta krafa félagsins sé hækkun grunnlauna en byrjunargrunnlaun séu tæp 170 þúsund. Hann bendir á að miklar kröfur séu gerðar til slökkviliðsmanna. Gerð sé krafa um iðnmenntun áður en menn ganga í slökkviliðið, auk þess sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn þurfi að ganga í gegnum þriggja ára nám eftir inngöngu. Þeir þurfi síðan að stunda reglulega líkamsrækt til að viðhalda líkamlegu þreki.

Smelltu á hlekkinn hér að neðan til að sjá myndskeiðið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×