Innlent

Drukkið fólk fær ekki aðgang að Laugardalslaug

Boði Logason skrifar
Laugardalslauginn er opin allan sólarhringinn þessa daganna.
Laugardalslauginn er opin allan sólarhringinn þessa daganna.
Bjarni Kjartansson rekstrarstjóri Laugardalslaugarinnar segir að eftir að skemmtistöðum borgarinnar var lokað klukkan eitt í nótt hafi aðsókn að lauginni orðið þéttari. En Laugardalslaugin er opin allan sólarhringinn þessa daganna og var þetta önnur nóttin af fimm þar sem gestir geta baðað sig að nóttu til.

„Rétt eftir eitt jókst aðsóknin mikið og starfsfólkið stóð sig vel í því að hleypa ekki drukknu fólki inn. Það var meira um að vera en fyrri nóttina, en ekkert þannig að einhver hætta skapaðist," segir Bjarni. „Það liggur ljóst fyrir að fólk undir áhrifum fær ekki aðgang að hér," segir Bjarni en starfsmenn laugarinnar nota ekki áfengismæla eða slíkt heldur meta starfsmennirnir það sjálfir. „Þú sérð það í hendi þér hvort að fólk er ölvað eða ekki. Þetta eru engin geimvísindi."

Bjarni býst ekki við því að mikið af drukknu fólki muni reyna komast í laugina í kvöld og nótt. „Í gær lokuðu skemmtistaðir klukkan eitt. Í nótt munu þeir loka milli fjögur og fimm. Þá er fólk ekki mikið tilbúið að fara í sund, það er bara reynslan."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×