Lífið

Grant gerir upp fortíðina

Bandaríski tónlistarmaðurinn hefur vakið mikla athygli fyrir sína nýjustu plötu.
Bandaríski tónlistarmaðurinn hefur vakið mikla athygli fyrir sína nýjustu plötu.
John Grant á bestu plötu ársins að mati breska tónlistartímaritsins Mojo. Þar slær þessi áður óþekkti tónlistarmaður við stórum nöfnum á borð við Arcade Fire og MGMT.

Bandaríski tónlistarmaðurinn John Grant hefur fengið frábæra dóma fyrir sína fyrstu sólóplötu, Queen of Denmark, sem kom út í apríl síðastliðnum. Á nýjum lista breska tímaritsins Mojo yfir bestu plötur ársins skákar þessi áður óþekkti tónlistarmaður risunum Arcade Fire og MGMT og trónir óvænt í efsta sætinu. Tímaritið Q er einnig hrifið af plötunni því þar nær hún sjötta sætinu yfir þær bestu á árinu. Önnur blöð sem hafa hælt gripnum eru NME og The Guardian í Bretlandi sem gáfu henni fjórar stjörnur af fimm mögulegum.

Queen of Denmark var tekin upp í samstarfi við þjóðlagarokkarana Midlake frá Texas. Meðlimir sveitarinnar sáu Grant á tónleikum og heilluðust upp úr skónum af baritónrödd hans og fáguðum, sorglegum lögunum. Þeir buðu honum með sér á tónleikaferð og fengu hann síðan til að taka upp sína fyrstu sólóplötu í þeirra eigin hljóðveri. Sjálfir spiluðu þeir undir í lögunum tólf sem heyra má plötunni.

Hinn 41 árs Grant er fyrrum forsprakki hljómsveitarinnar The Czars, sem aldrei náði að slá í gegn og hætti á endanum störfum 2004. Áður en Midlake sá hann spila íhugaði hann að gefa tónlistina upp á bátinn en sem betur fer gafst hann ekki upp og ákvað að halda áfram einn og óstuddur.

Queen of Denmark er afar persónuleg plata þar sem Grant gerir upp fortíðina og syngur um baráttu sína við áfengis- og eiturlyfjafíkn, misheppnuð ástarsambönd og um það hvernig hann tókst á við samkynhneigð sína. Þar hjálpaði það honum ekki að vera alinn upp í trúaðri fjölskyldu í miðvesturríkjum Bandaríkjanna.

Platan er nokkuð undir áhrifum bandarískrar þjóðlagatónlistar áttunda áratugarins og hafa gagnrýnendur líkt Grant við The Carpenters og Harry Nilsson. Einnig sjá þeir líkindi með honum og þeim Gilbert O"Sullivan, Dennis Wilson og Jeff Buckley.

Einn gagnrýnandinn nefnir að einu mistök rokkaranna í Midlake, ef mistök skyldi kalla, væru að þeir skyldu hafa hjálpað Grant að búa til plötu sem væri betri en þeirra eigin verk. Til marks um það nær þriðja plata Midlake, The Courage of Others, „aðeins“ sjöunda sæti á árslista Mojo á meðan Grant horfir glaður af toppnum niður til velgjörðarmanna sinna.

freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.