Innlent

Veðrið setur strik í reikninginn á Humarhátíðinni á Höfn

Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Óvíst er með dagskrá Humarhátíðar á Höfn í dag en leiðinlegt veður er í bænum. Nokkrir gestir tjaldsvæðisins þurftu á aðstoð að halda í nótt vegna vatnsveðurs.

Humarhátíðin er árlegur hápunktur sumarsins á Höfn í Hornafirði. Veðrið hefur hins vegar sett sitt strik í reikninginn þetta árið. Færri eru í bænum heldur en vanalega og hefðbundin dagskrá er í uppnámi vegna veðurs. „Þannig að við vitum ekki hvort við náum að halda dagskrá úti með eðlilegum hætti i dag," segir Valdimar K. Árnason einn skipuleggjandi hátíðarinnar.

„Veðrið hefur oft verið betra en sjaldan verra," segir Valdimar. „Það er lítið að gera í svona rigningu ef ekki styttir upp."

Á Akranesi eru Írskir dagar haldnir hátíðlegir. Guðmundur Páll Jónsson setti hátíðina í gær. Hann segir að hátíðin sé mikil fjölskylduskemmtun og að hápunktur hennar verði brekkusöngur og lopapeysuballið svokallaða í kvöld. „Lopapeysuballið er eitt stærsta ball landsins. Þar verður pottþétt mikil stemmning."

Fjórir gistu fangageymslur á Akranesi í nótt en einn maður var handtekinn með lítilræði af fíkniefnum. Þá handtók lögregla mann sem ók undir áhrifum áfengis. Að öðru leyti gekk nóttin vel, að sögn lögreglu.

Þá eru tæplega 5000 manns í Galtalæk þar sem útihátíð er haldin en að sögn lögreglu var talsverð ölvun þar í nótt.

Þess má einnig geta að um helgina eru haldnir Hamingjudagar á Hólmavík og Goslokahátíð í Vestmannaeyjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×