Innlent

Bíða yfirmats um áhrif skítalyktar

Laufey Jóhannsdóttir
Laufey Jóhannsdóttir
„Við höldum því til haga að við eigum ekki að bæta þennan skaða," segir Laufey Jóhannsdóttir, sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar, um afstöðu sveitarfélagsins til skaðabótakröfu eigenda jarðarinnar Melaleitis vegna reksturs svínabús Stjörnugríss á næstu jörð.

Eigendur Melaleitis telja að með því að sveitarfélagið veitti Stjörnugrísi byggingarleyfi fyrir svínabúi árið 1999 hafi það orðið til þess að rýra verðmæti Melaleitis vegna ólyktar og fleiri atriða. Upphafleg krafa hljóðaði samtals upp á sextíu milljónir króna en sú upphæð mun hafa lækkað nokkuð eftir að niðurstaða dómkvadds matsmanns lá fyrir. Hvalfjarðar-sveit unir ekki því mati.

„Það var álit okkar lögmanns að matið ætti að vera hlutlaust svo við settum það í yfirmat," segir Laufey og útskýrir að verkefnið sé að meta hvort skaði hafi orðið á jörðinni Melaleiti miðað við þá starfsemi sem þar hafi verið árið 1999. Enn sé mögulegt að ná sáttum í málinu án atbeina dómstóla.

Eigendur Melaleitis hafa sagt að það hafi eingöngu verið eigendur jarðarinnar undir svínabúinu og sveitarfélagið sjálft sem hagnast hafi á breyttu deiliskipulagi sem gerði kleift að reka búið á þessum stað.

Laufey segir hagsmuni sveitar-félagsins af svínabúinu fyrst og fremst felast í fasteignagjöldum eins og af hverju öðru húsi yfir atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu. „Það eru ekki margir sem starfa þarna," bendir sveitarstjórinn á.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×